pb.annáll.is

AnnállAkureyrarAkademíanDeutschEvrópa Unga FólksinsJólKirkjanPersónur og leikendurÚr Glerárkirkju

« Sú var tíðin, að Húsmæðraskóli Akureyrar var fullsetinn · Heim · Húsmæðraskóli á Akureyri »

Kosning vígslubiskups er nýlega um garð gengin

Pétur Björgvin @ 09.42 27/1/12

Kosning vígslubiskupa er nýlega um garð gengin og fóru þær kosningar þannig:

Í Skálholtsbiskupsdæmi hinu forna var kosinn:
Valdimar Briem, prófastur á Stóra-Núpi, er hlaut 66 atkvæði af 84 atkvæðum, er greidd voru.

— Næstir honum hlutu atkvæði
lector Jón Helgason í Reykjavík (12 atkv.)
og prófastur Jens Pálsson í Görðum (3 atkv.)

Í Hólabiskupsdæmi var kosinn:
Geir prófastur Sæmundsson á Akureyri, er hlaut 16 atkv.

Auk hans blutu þessir atkvæði:
síra Björn Jónsson í Miklabæ (4 atkv.j,
Stefán M. Jónsson á Auðkúlu (4 atkv.),
síra Jónas Jónasarson á Hrafnagili (4 atkv.)
síra Arni Jónsson á Skútustöðum (3 atkv.)
o, fl. færri atkvæði. —

Svona var þetta 1909 (Heimild: Þjóðviljinn, 24.11.1909). 84 atkvæði greidd við vígslubiskupskosningu í Skálholti. Þá bjuggu 83.576 manns á Íslandi (Heimild: Hagstofan). Þó landið skiptist í tvö stifti, leyfi ég mér að segja í því samhengi sem ég skrifa hér: 1 atkvæði á hverja 1.000 íbúa.

Rúmum 100 árum seinna í vígslubiskupskjöri í Skálholti 2011 voru 149 manns á kjörskrá (Heimild: kirkjan.is). Þá tilheyrðu 247.245 manns þjóðkirkjunni (Heimild: Hagstofan). Með sama fyrirvara og að ofan leyfi ég mér að segja að þá hafi gilt: 1 atkvæði á hverja 1.660 meðlimi þjóðkirkjunnar. Úrslit voru þessi:

Sr. Kristján Valur Ingólfsson fékk 80 atkvæði
Sr. Sigrún Óskarsdóttir fékk 61 atkvæði

Einn seðill var auður. (Heimild: kirkjan.is)

En nú eru á vissan hátt breyttir tímar. Árið 2011 rétt eins og 1909 og í aldir þar á undan voru það prestarnir einir sem gátu kosið. En á árinu 2012 verða leikmenn meirihluti kjörmanna í biskupskjöri. Um þetta má lesa á vef Kirkjuþings:

Leikmenn verða meirihluti kjörmanna í biskupskjöri samkvæmt nýjum starfsreglum sem samþykktar voru á lokadegi kirkjuþings í dag. Samþykkt var að allir formenn sóknarnefnda og að auki hafi varaformenn sóknarnefnda í Kjalarnessprófastsdæmi og Reykjavíkurprófastsdæmum eystra og vestra hafi kosningarétt.

Í nýju starfsreglunum segir um kosningaréttinn:

Kosningarrétt við biskupskjör eiga vígðir þjónar og leikmenn sem hér segir:

a) biskup Íslands, vígslubiskupar og þjónandi prestar þjóðkirkjunnar, sbr. 33. gr. laga um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar nr. 78/1997. Ennfremur þeir prestar þjóðkirkjunnar, sem settir eru til þjónustu til eins árs eða lengri tíma.

b) prestvígðir menn í föstu starfi innan þjóðkirkjunnar.

c) þjónandi djáknar í föstu starfi innan þjóðkirkjunnar. Djákni skal vera ráðinn ótímabundið eða til a.m.k. eins árs til að njóta kosningarréttar.

d) kjörnir fulltrúar á kirkjuþingi og í kirkjuráði.

e) formenn allra sóknarnefnda sem og varaformenn sóknarnefnda í Kjalarnessprófastsdæmi og Reykjavíkurprófastsdæmum eystra og vestra.

f) kennarar í föstu starfi við guðfræði- og trúarbragðafræðideild Háskóla Íslands og eru guðfræðingar.

Skilyrði kosningarréttar er að kjósandi sé skráður í þjóðkirkjuna við framlagningu kjörskrár.

Nú styttist óðfluga í að kjörskrá verði lögð fram. Eins og fram hefur komið víða (t.d. á mbl.is) þá mun kjörskráin miðast við 1. febrúar nk. Hlutfallslega munu þó lítið fleiri hafi kosningarétt heldur en árið 1909. En okkur miðar aðeins áfram.

url: http://pb.annall.is/2012-01-27/kosning-vigslubiskup-er-nylega-um-gard-gengin/

Athugasemdir

Fjöldi 1, nýjasta neðst

pb.annáll.is - » Karlar 58% þeirra sem kjósa biskup. @ 1/2/2012 22.11

[...] hvað biskupskjör varðar. Fyrir nokkrum dögum nefndi ég þessar breytingar lauslega í bloggi hér á annál, en það sem er kannski fréttnæmast í þeim breytingum er að mun fleiri koma að biskupskjöri [...]


© pb.annáll.is · Færslur · Ummæli