pb.annáll.is

AnnállAkureyrarAkademíanDeutschEvrópa Unga FólksinsJólKirkjanPersónur og leikendurÚr Glerárkirkju

« Fyrir peninga … · Heim · Ég gleðst yfir kirkjunni minni »

Kemur fólki skilnaður biskupsefnis við?

Pétur Björgvin @ 14.09 29/1/12

Á facebook síðunni minni vísaði ég í pistil Sigurðar Árna þar sem hann sem einn af þeim sem bjóða sig fram til biskups, svarar spurningu sem honum barst: Getur fráskilinn einstaklingur orðið biskup? Mér þótti svarið hreinskilið og að Sigurður Árni ætti hrós skilið. En Carlos kom með áhugavert innlegg í umræðuna:

Rétt svar við þessari spurningu ætti samt að vera gagnspurningin:

« Getur nokkur breyskur maður orðið biskup, prestur eða yfir höfuð kristinn? »

Því það er ekki breyskleikinn, sem á að horfa á, heldur sú staðreynd að Guð kýs að vinna með allskonar fólki. Þannig að spurningin ætti fremur að vera, getur maður treyst nokkrum til þess að vera biskup, nema hann sé búinn að verka reynslu sína og sé í góðu jafnvægi?

Og ég svaraði:

Já og nei Carlos, ef einstaklingur spyr og er að horfa á breyskleikann, þarf þá ekki að ræða hann (upp að vissu marki amk)? En sammála því að þetta snýst auðvitað fyrst og fremst um að manneskjan sé búin að vinna úr sínum málum.

Og Carlos aftur:

Þá ætti kannski líka að spyrja hvort börn verðandi biskups séu kirkjurækin, trúuð etc. og hvort sama eigi við maka hans.

Sumt kemur fólki ekki við, og í samfélagi þar sem hjónaskilnaður er ekki tilefni til þess að svipta menn kjóli eða færa menn til í kirkjulegu starfi, ætti þetta líka að vera « ekki spurning ».

Mér þykja þessar vangaveltur áhugaverðar og ákvað að deila þeim líka hér á annál.

url: http://pb.annall.is/2012-01-29/kemur-folki-skilnadur-biskupsefnis-vid/

Athugasemdir

Fjöldi 10, nýjasta neðst

Carlos @ 29/1/2012 14.26

Ég var eitt sinn spurður hvort mér finnist kirkja eigi að vígja samkynhneigða í hjónaband. Það var rit kristniboðssambandsins sem vildi koma þessu út á meðal fólks á níunda áratugnum. Þá spurði ég aftur á móti, af hverju kirkjan ætti yfir höfuð að vígja fólk til hjónabands.

Því að það er ekki kynferðið heldur ásetningurinn sem gerir hjónaband að hjónabandi, og ekki skortur af gömlum lífsmeiðslum sem gerir biskup að biskupi, heldur hvernig hann er gróinn sára sinna.

Hjalti Rúnar @ 29/1/2012 16.08

Það er eflaust hægt að umorða spurninguna: Ætti einstaklingur sem að brýtur opinberlega gegn skýrum boðskapi Jesú að verða biskup?

Samfélagið er auðvitað orðið svo ókristilegt að við sjáum almennt ekkert rangt við skilnaði og að fólk giftist einhverjum öðrum, en það er spurning hvort að Þjóðkirkjan sé endanlega búin að gefast upp á “kristnu siðferði”.

Þá ætti kannski líka að spyrja hvort börn verðandi biskups séu kirkjurækin, trúuð etc.

Kannsi ætti að spyrja hvort að biskupinn sjálfur sé trúaður, eða amk rétt-trúaður. ;)

Pétur Björgvin @ 29/1/2012 16.48

Rómverjabréfið 3:23
Allir hafa syndgað og skortir Guðs dýrð

Hjalti Rúnar @ 29/1/2012 17.05

Pétur, ég held að þetta vers sé svar til mín. Gætirðu útskýrt hvernig þú telur þetta vers tengjast umræðunni? Þýðir þetta vers að það verða ekki gerðar neinar kröfum til biskups í siðferðisefnum? Má hann bara telja að hvað sem er sé rétt og gott, hjónaskilnaður, framhjáhald, þjófnaður, og stunda það opinberlega, af því að “allir hafa syndgað og skortir guðs dýrð”?

Svo að ég komi með annað dæmi: værirðu sáttur við að kjósa einhvern sem stundaði framhjáhald opinberlega og teldi í raun ekkert vera að því? Það er jú líka synd, en “allir hafa syndgað”!

Og ef þú vilt koma í biblíuversaleik, þá er alveg hægt að benda á vers þar sem gerðar eru miklar kröfur til biskups. Eru þau kannski bara úrelt, eða trompar þitt vers mínum versum?

Pétur Björgvin @ 29/1/2012 17.47

Sæll Hjalti Rúnar, mátti til með að skella þessu versi inn á hlaupunum áðan.

Þú hefur rétt fyrir þér, í þriðja kafla, fyrra Tímoteusarbréfs lesum við um biskupa:

Það orð er satt. Sækist einhver eftir biskupsstarfi þá girnist hann göfugt hlutverk. Biskup á að vera óaðfinnanlegur, einkvæntur,bindindissamur, hóglátur, háttprúður, gestrisinn, góður fræðari, ekki drykkfelldur, ekki ofsafenginn, heldur gæfur, ekki deilugjarn, ekki fégjarn. Hann á að vera maður sem veitir góða forstöðu heimili sínu og venur börn sín á hlýðni og alla prúðmennsku.
Hvernig má sá sem ekki hefur vit á að veita heimili sínu forstöðu veita söfnuði Guðs umsjón?
Hann á ekki að vera nýr í trúnni til þess að hann ofmetnist ekki og verði fyrir sama dómi og djöfullinn. Hann á líka að hafa góðan orðstír hjá þeim sem standa fyrir utan til þess að hann verði ekki fyrir álasi og lendi í tálsnöru djöfulsins.

Í sama kafla er einnig að finna orð um djáknana:

Svo eiga og djáknar að vera heiðvirðir, hreinskilnir, ekki drykkfelldir eða ágjarnir. Þeir skulu varðveita leyndardóm trúarinnar með hreinni samvisku. Einnig þá skal fyrst reyna, síðan takist þeir þjónustuna á hendur ef þeir eru óaðfinnanlegir. Ef konur eru djáknar skulu þær vera heiðvirðar, ekki rógberar, heldur bindindissamar, trúar í öllu. Djáknar séu einkvæntir og hafi góða stjórn á börnum sínum og heimilum. Því að þeir sem hafa staðið sig vel sem djáknar ávinna sér góðan orðstír og mikla djörfung í trúnni á Krist Jesú.

Ég upplifi þessi orð sem sönn og góð og mér er það eftirsóknarvert að fara eftir þeim. Því miður gengur það ekki alltaf og þá er það mitt að iðrast, ganga fram fyrir Drottinn, viðurkenna mín mistök og biðjast fyrirgefningar, bæði hans sem og fyrirgefningar þeirra sem ég hef gert e-ð.

Þú kemur að kjarna málsins þegar þú spyrð:

værirðu sáttur við að kjósa einhvern sem stundaði framhjáhald opinberlega og teldi í raun ekkert vera að því? Það er jú líka synd, en “allir hafa syndgað”!

Þetta er lykilatriði sem þú bendir réttilega á. Þaða er semsagt stór munur á því að einstaklingur iðrist misgjörða sinna og vinni úr þeirri reynslu, sbr. það sem ég var að nefna hér í setningunni á undan, eða hvort hann velur meðvitað að lifa syndugu líferni, eins og þú lýsir. En þakka þér þessar vangaveltur.

Hjalti Rúnar @ 29/1/2012 18.12

Allt í lagi, þér finnst sem sagt að það ætti ekki að kjósa einhvern sem iðrast ekki, heldur “velur meðvitað að lifa syndugu líferni”?

Hvað þá með einhvern sem að giftir sig aftur eftir að hafa skilið og sér ekkert eftir því, heldur velur meðvitað að lifa því synduga líferni?

Pétur Björgvin @ 29/1/2012 20.42

Hjalti, kláraðu setninguna sem þú ert að vitna í. Þar segi ég:

velur meðvitað að lifa syndugu líferni, eins og þú lýsir

Og hvaða synduga líferni lýsir þú:

stundaði framhjáhald opinberlega og teldi í raun ekkert vera að því

Hver segir annars að það sé kenning þjóðkirkjunnar að það sé synd að ganga í hjónaband þrátt fyrir að eiga sér sögu um fyrra hjónaband þar sem lögskilnaður hefur gengið í gegn?

Hjalti Rúnar @ 29/1/2012 20.54

Hjalti, kláraðu setninguna sem þú ert að vitna í.

Pétur, ég skildi þig þannig að þessi ummæli þín væru almenn. Þeas að einstaklingur sem “velur meðvitað að lifa syndugu líferni” (hvaða líferni það svo sem er) og sér ekkert eftir því, sé ekki hæfur til að verða biskup.

Hver segir annars að það sé kenning þjóðkirkjunnar að það sé synd að ganga í hjónaband þrátt fyrir að eiga sér sögu um fyrra hjónaband þar sem lögskilnaður hefur gengið í gegn?

Það er nú hægara sagt en gert að komast að því hvað “kenning Þjóðkirkjunnar” er. Ef þú getur sagt mér hvar hægt er að lesa sér til um þær, þá myndi ég gjarnan vilja heyra það.

Það sem ég spurði í upphafi hérna var: Ætti einstaklingur sem að brýtur opinberlega gegn skýrum boðskapi Jesú að verða biskup?

Pétur Björgvin @ 29/1/2012 21.34

Hjalti, þú ert nú veraldarvefsvanari en svo að þú sért ekki búinn að nota leitarvélar til að finna játningar þjóðkirkjunnar, t.d. hér: http://www2.kirkjan.is/truin/jatningar

Í því samhengi sem hér er rætt, eru þá fræði Lúthers hin minni kannski áhugaverðugust. Þar segir um sjötta boðorðið:

Sjötta boðorð
Þú skalt ekki drýgja hór.

Hvað er það? Svar: Vér eigum að óttast og elska Guð, svo að vér lifum hreinlega og siðlega í orðum og verkum og sérhver hjón elski og virði hvort annað.

En víkjum nú að þrætubókarlistinni, sem ég er ekki frá að þú hafir nokkuð gaman af.

Varðandi þær kröfur sem gerðar eru til biskupsefna má lesa í starfsreglum um kosningu biskups Íslands. Þar segir:

Kjörgengur til embættis biskups Íslands og vígslubiskups er hver guðfræðikandídat, sem fullnægir skilyrðum til þess að vera skipaður prestur í þjóðkirkjunni.

Og nú verður að spyrja, hvaða skilyrði eru það. Um það má lesa í lögum nr. 78 frá 26. maí 1997 um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar. Þar segir:

38. gr. Almenn skilyrði til skipunar eða setningar í prestsembætti eru þessi:
1. 25 ára aldur. Biskup Íslands getur þó veitt undanþágu frá því ákvæði.
2. Embættispróf frá guðfræðideild Háskóla Íslands eða frá viðurkenndri guðfræðideild eða guðfræðiskóla, og skal biskup Íslands leita umsagnar guðfræðideildar Háskóla Íslands um hið síðarnefnda.
3. Að kandídat hafi ekki gerst sekur um athæfi sem ætla má að rýri álit hans og sé ósamboðið manni í prestsstarfi.
Áður en kandídat hlýtur vígslu skal hann hafa hlotið starfsþjálfun samkvæmt nánari ákvæðum í starfsreglum, sbr. 59. gr.
Að öðru leyti verður kandídat að fullnægja almennum skilyrðum 6. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

Leturbreyting mín í textanum hér að ofan er til að undirstrika og bregðast við spurningu þinni Hjalti. Því að ég held að þetta sé það sem brennur á vörum fólks. Og þetta er það sem er mikilvægt. Við höfum áður átt orðastað á vefnum og þér er vel kunnugt að sá Jesús sem birtist í Nýja testamentinu er mér ekki alltaf fyrirmynd. Nýverið ræddum við jú um orð hans þér nöðrukyn og því þarf þér ekki að bregða þó svo að ég svari því persónulega að ég leyfi mér að taka almenn, gild og samþykkt viðhorf í samfélaginu, gildandi lög og rétt, sem mikilvæg og sem frumforsendu þess að samfélag okkar gangi upp í dag.

Ég tel það samfélaginu okkar ekki til framdráttar að við, hvorki ég né þú, förum að setjast í dómarasæti og túlka orð helgra manna eða annarra þannig að við notum þær til þess að dæma einstaklinga. Að minnsta kosti tel ég það ekki okkar hlutverk.

Ef boðskapur Jesú væri svo skýr í öllum efnum eins og skilja mætti setninguna þína, þá sætum við ekki uppi með þá stöðu að vera með óteljandi fjölda kristinna kirkjudeilda. Og í þessum efnum tökumst við á, milli kirkjudeilda sem og annars staðar. Og hér er aftur gott að minna á samtal sem við áttum nýverið þar sem þú skammaðist yfir því að við í þjóðkirkjunni værum ekki nógu dugleg að skamma þau sem væru bókstafstrúar. En í dag viltu gera okkur bókstafstrúar, varst þó þú í “gær” sá sem vildir að hin “ekki svo mikið” bókastafstrúar kirkja skammaðir hinar.

Í öllu falli ætla ég ekki að taka þátt í kirkju sem hverfur til miðalda í einhver réttarhöld, þar sem bókstafurinn – eins og viðkomandi hópur telur hentugt að túlka hann – er tekinn fram yfir manneskjuna. Spurning þín á heima í slíkri bókstafstrúarkirkju. Þar situr Jesús úti á tröppunum, þar hefur honum þegar verið kastað út, vegna þess að hann gerði í því að brjóta gegn því sem talið var skýr boðskapur – Jesús kom ekki til að binda lögmálshugsunina, heldur til að leysa hana. Þess vegna eigum við nýtt testamenti.

Þetta er orðið heldur langt hjá mér, læt gott heita í bili.

Hjalti Rúnar @ 29/1/2012 22.13

Hjalti, þú ert nú veraldarvefsvanari en svo að þú sért ekki búinn að nota leitarvélar til að finna játningar þjóðkirkjunnar, t.d. hér: http://www2.kirkjan.is/truin/jatningar

Pétur, nú var ég nýlega skammaður fyrir að tala um að játningarnar innihéldu “kenningu Þjóðkirkjunnar”. Og ég held að það sé alveg vitað að þær eru ómerkur pappír innan Þjóðkirkjunnar (því til sönnunar væri hægt að spyrja biskupsefnin fjögur út í hvort þau samþykki hitt og þetta út játningunum, og ég er þess nokkuð viss um að að minnsta kosti tvö þeirra eru “örgustu trúvillingar”).

Ef boðskapur Jesú væri svo skýr í öllum efnum eins og skilja mætti setninguna þína, þá sætum við ekki uppi með þá stöðu að vera með óteljandi fjölda kristinna kirkjudeilda.

Auðvitað held ég því ekki fram að öll þau ummæli sem eru eignuð Jesú í guðspjöllunum séu “skýr”. En þessi orð eru það: “Sá sem skilur við konu sína og kvænist annarri, drýgir hór gegn henni.” (Mk 10:11) Ef þetta er ekki skýrt, þá legg ég til að þú hættir að tala um að Jesús hafi kennt eitthvað, boðað eitthvað, eða viljað eitthvað, því að þá er augljóslega ekki hægt að skilja eitt einasta orð sem honum er eignað.

En í dag viltu gera okkur bókstafstrúar,…

Nei, ég vil það ekki. Pétur, mér leiðist bara þessi ótrúlega tvöfeldni innan kirkjunnar. Helst vildi ég fá svör eins og: “Álit Jesú skiptir ekki máli.”, eða “Jesús hafði rangt fyrir sér.” eða “Pff…þetta er bara eitthvað sem að höfundur guðspjallsins skáldaði.”


© pb.annáll.is · Færslur · Ummæli