pb.annáll.is

AnnállAkureyrarAkademíanDeutschEvrópa Unga FólksinsJólKirkjanPersónur og leikendurÚr Glerárkirkju

« Ég gleðst yfir kirkjunni minni · Heim · Vangaveltur um vígslubiskupskjör »

Karlar 58% þeirra sem kjósa biskup.

Pétur Björgvin @ 22.10 1/2/12

Kjörstjórn við biskupskosningu hefur, í samræmi við starfsreglur um kosningu biskups Íslands og vígslubiskupa nr. 1108/2011, samið kjörskrá vegna kjörs biskups Íslands. Á kjörskrá eru 492. Kjörskráin var birt á kirkjan.is. Ég tók mig til og rýndi aðeins í kjörskrána. Við þá rýnivinnu studdist ég við þau gögn sem lágu fyrir þann 1. febrúar 2012. Þar sem ég greini gögnin að hluta til eftir prófastsdæmum er vert að minna á að í þessum kosningum er landið eitt kjördæmi.

Á kirkjuþingi síðastliðið haust voru samþykktar stórvægilegar breytingar hvað biskupskjör varðar. Fyrir nokkrum dögum nefndi ég þessar breytingar lauslega í bloggi hér á annál, en það sem er kannski fréttnæmast í þeim breytingum er að mun fleiri koma að biskupskjöri en áður. Tvennt þótti mér sérstaklega áhugavert að skoða. Annars vegar hvert kynjahlutfall kjörmanna væri. Hins vegar hve stór hluti kjörmanna kæmi úr hópi presta og þá sérílagi hve mikill munurinn væri á því hlutfalli milli prófastsdæma.

mynd1Á mynd 1 er einstaklingum á kjörskrá skipt upp í fjóra hópa. Alls er 492 einstaklingar á kjörskrá. Ef þeim er skipt upp eftir því hvort þeir eru í vígðri þjónustu eða gegna ábyrgðarstöðum sem svonefndir leikmenn. Til einföldunar er kennurum við guðfræðideild raðað í hóp með vígðum einstaklingum. Undir vígða einstaklinga falla allir prestar og djáknar, skv. nánari skilgreiningu í starfsreglum um biskupskjör. Svokallaðir leikmenn aftur á móti eru sóknarnefndarformenn á landinu öllu auk varasóknarnefndarformanna af höfuðborgarsvæðinu. Eins og sjá má á myndinni er meirihluti þeirra sem mega kjósa karlar, 23% kjörmanna eru vígðir karlar, 35% kjörmanna eru leikir karlar, 28% kjörmanna leikar konur og 14% kjörmanna vígðar konur.

Á mynd 2 má sjá hvernig atkvæði skiptast milli leikra og vígðra í hverju prófastsdæmi fyrir sig. Myndin sýnir hversu miklu munar á milli prófastsdæma. Vissulega má færa fyrir því rök að það skipti í sjálfu sér ekki máli þar sem að í biskupskosningum sé landið eitt kjördæmi, en um leið má velta því fyrir sér hvort þetta sé sú skipting atkvæða sem við viljum sjá, sérstaklega í ljósi þess að vægi atkvæða leikmanna er í öfugu hlutfalli við fjölda þjóðkirkjumeðlima í prófastsdæmunum. Þann 1. desember 2010 var meðlimafjöldinn í prófastsdæmunum sem hér segir:

  • Vestfjarðarprófastsdæmi 4643
  • Húnavatns- og Skagafjarðarprófastsdæmi 5265
  • Austurlandsprófastsdæmi 6854
  • Vesturlandsprófastsdæmi 10.060
  • Suðurprófastsdæmi 17.028
  • Eyjafjarðar- og Þineyjarprófastsdæmi 19.929
  • Reykjavíkurprófastsdæmi vestra 38.012
  • Kjalarnesprófastsdæmi 39.693
  • Reykjavíkurprófastsdæmi eystra 50.172 (heimild:hagstofa.is)

mynd2Verðlaun dagsins fær yngsta prófastsdæmið, Austurlandsprófastdæmi fyrir jafnt vægi atkvæða karla og kvenna. En þar er næstum því jafn margar konur og karlar í hópi kjörmanna. Á mynd 3 hér fyrir neðan má sjá hversu skipting kjörmanna í karla og konur er misjöfn eftir prófastsdæmum. Frekari greiningar er þörf ef ætlunin er að setja fram tilgátur um hvaða áhrif þetta misræmi hefur á komandi kosningu. Frá Alþingiskosningum þekkjum við þó að kjörsókn kvenna er almennt betri en karla og að kjörsókn utan höfuðborgarsvæðisins er almennt betri (heimild:hagstofa.is). (Smá innskot fyrir áhugafólk um jarðfræði: Ef dregin er lína í gegnum Ísland þar sem virku rekbeltin eru í dag, þá eru prófastdæmin fjögur þar sem atkvæði karla undir 60% af heildaratkvæðunum austan megin.)

mynd3

Mér finnst þetta áhugavert. En kannski er ég einn um það. Glærurnar sem ég bjó til má nálgast í heild sinni hér.

url: http://pb.annall.is/2012-02-01/karlar-58-theirra-sem-kjosa-biskup/

Athugasemdir

Fjöldi 6, nýjasta neðst

Hjalti Rúnar @ 1/2/2012 23.58

Það hefði verið gaman að sjá kennitölurnar þarna, grunar að þetta sé algert öldungaræði.

Árni Svanur @ 2/2/2012 08.46

Takk fyrir þetta fína yfirlit Petur Björgvin.

Pétur Björgvin @ 2/2/2012 09.01

Sæll Hjalti Rúnar, ég hefði líka viljað geta aldursgreint þennan hóp, þætti það mjög áhugavert. Hvað prestana varðar hef ég nýverið birt pistil um aldur presta. Þessi breyting á starfsreglunum núna var að mér skilst hugsuð sem skref í þá átt að kjörmenn endurspegli þversnið kirkjunnar. Þannig að næstu skref hljóta meðal annars að fela í sér að skoða aldursdreifingu. En takk fyrir viðbrögðin.

Pétur Björgvin @ 2/2/2012 09.01

Takk fyrir hlý orð Árni Svanur.

Sigurður Árni Þórðarson @ 2/2/2012 11.00

Þetta yfirlit er til fyrirmyndar og gefur glögga mynd. Þriðjungur prestar og þriðjungur óvígðir karlar. Kynjamunur minni en ég hafði búist við svo það kemur mér þægilega á óvart.

pb.annáll.is - » 1/3 biskupsatkvæða í stóru prófastsdæmunum þremur @ 28/2/2012 14.15

[...] Pistill um kjörskrárrýni í upphafi febrúarmánaðar hér á annál. [...]


© pb.annáll.is · Færslur · Ummæli