pb.annáll.is

AnnállAkureyrarAkademíanDeutschEvrópa Unga FólksinsJólKirkjanPersónur og leikendurÚr Glerárkirkju

« Karlar 58% þeirra sem kjósa biskup. · Heim · Tilviljun? í Glerárkirkju »

Vangaveltur um vígslubiskupskjör

Pétur Björgvin @ 23.22 1/2/12

Ég hef aldrei kosið biskup né vígslubiskup. Kannski er það þess vegna sem ég hef heldur aldrei velt fyrirkomulaginu neitt sérstaklega fyrir mér. En í kvöld settist ég aðeins niður, skoðaði 3. gr. starfsreglna nr. 18/2011 og sýnist að hátt í 200 manns gætu verið á kjörskrá fyrir vígslubiskupskjörið á Hólum í vor. Það er nokkru stærri hópur en ég átti von á.

Skoðum þetta aðeins nánar. 3. gr. hefst svona:

Kosningarrétt við vígslubiskupskjör eiga vígðir þjónar og leikmenn sem hér segir:
a) biskup Íslands, vígslubiskupar og þjónandi prestar þjóðkirkjunnar, sbr. 33. gr. laga um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar nr. 78/1997, með starfsstöð í því umdæmi vígslubiskups sem kosið er í. Ennfremur þeir prestar þjóðkirkjunnar, sem settir eru til þjónustu til eins árs eða lengri tíma með starfsstöð í því umdæmi vígslubiskups sem kosið er í. b)prestvígðir menn í föstu starfi innan þjóðkirkjunnar með starfsstöð í því umdæmi vígslubiskups sem kosið er í.

Ef kjörskráin sem birt var í dag (1. febrúar) er skoðuð, þá er hér þá væntanlega um eftirfarandi kjörmenn að ræða:

  • 3 biskupar/vígslubiskupar
  • 8 prestar úr Húnavatns- og Skagafjarðarprófastsdæmi
  • 19 prestar úr Eyjafjarðar- og Þingeyjarprófastsdæmi
  • 11 prestar úr Austurlandsprófastsdæmi

Semsagt  41 prestur, en það eru fleiri á listanum. Skoðum liði c:

c) þjónandi djáknar í föstu starfi innan þjóðkirkjunnar með starfsstöð í því umdæmi vígslubiskups sem kosið er í. Djákni skal vera ráðinn ótímabundið eða til a.m.k. eins árs til að njóta kosningarréttar.

Við erum tvö, þ.e. ég og Kristín á Borðeyri. Þá erum við komin með 43 vígða þjóna sem kjörmenn. En nú vandast málið, því liður d endar ekki á hinni hefðbundnu setningu sem a,b, c og f  liðir enda á, þ.e. ,, í því umdæmi vígslubiskups sem kosið er í” Heldur stendur þar einfaldlega:

d) kjörnir fulltrúar á kirkjuþingi og í kirkjuráði

Meðan enginn leiðréttir mig, þá gef ég mér að allir sem sitja á kirkjuþingi kjósi vígslubiskup á Hólum, óháð því hvar þeir búa. Á kirkjuþingi sitja 29 fulltrúar, 17 fulltrúar leikmanna og 12 fulltrúar vígðra. Til þess að tvítelja engan verð ég að draga frá þá vígðu þjóna sem ég hef þegar talið undir a og b lið, en falla líka undir þennan lið. Það eru 3 vígðir fulltrúar úr kjördæmum 6,7 og 8. Þá erum við komin með á kjörskrá samtals: 51 vígðan þjón og 17 leikmenn. Og við lesum áfram, í lið e stendur:

e) formenn sóknarnefnda í því umdæmi vígslubiskups sem kosið er í.

Samkvæmt kjörskrá dagsins eru það 104 einstaklingar. Þá erum við komin með 51 vígðan þjón og 121 leikmann á kjörskrá. Liður f á ekki við, en í lið g segir:

g) kennarar í föstu starfi við guðfræði- og trúarbragðafræðideild Háskóla Íslands og eru guðfræðingar.

Hér vandast aðeins málið, sumir kennararnir eru vígðir, aðrir ekki. Til einföldunar tel ég þá alla með vígðu þjónunum. Þau eru sjö talsins og þá erum við með 58 vígða þjóna og 121 leikmann á kjörskrá fyrir vígslubiskupskjör á Hólum.

Niðurstaða: 179 manns með kosningarétt til að kjósa vígslubiskup á Hólum. Til að sjá hve mikil breyting þetta er, er gott að átta sig á því að síðast þegar kosinn var vígslubiskup á Hóla (2003) voru ríflega 60 manns á kjörskrá#.

url: http://pb.annall.is/2012-02-01/vangaveltur-um-vigslubiskupskjor/


© pb.annáll.is · Færslur · Ummæli