pb.annáll.is

AnnállAkureyrarAkademíanDeutschEvrópa Unga FólksinsJólKirkjanPersónur og leikendurÚr Glerárkirkju

« Siglt á ný mið með biskup við stýrið sem er traustsins verður · Heim · Nákvæmlega – Ísland er ekki samhengislaust »

Gengið í Raufarhólshelli 9. febrúar 2012

Pétur Björgvin @ 22.02 13/2/12

Fimmtudaginn 9. febrúar 2012 heimsótti ég Raufarhólshelli ásamt stórum hópi erlendra sjálfboðaliða. Erfitt var að finna opið á hellinum þar sem skafið hafði eiginlega alveg fyrir það. Þegar inn var komið þurfti að brjótast yfir nokkrar snjóbreiður þar til komið var inn fyrir þriðja og síðasta opið sem er á hellisþakinu. Þá tók við ótrúlega ísveröld sem gerði okkur mjög erfitt að fara um hellinn. En inn fórum við, rétt eins og prófessor H. Munger og félagar 14. febrúar árið 1954. Samkvæmt þeirra mælingum náði ísinn um 200 metra inn hellinn. Mér þykir ekki ólíklegt að það hafi verið svipað á fimmtudaginn var, en við höfðum engin tæki til mælinga meðferðis.

IMG_1808Við dvöldum um tvær klukkustundir í hellinum. Á þeim tíma fórum við nægilega langt inn í hellinn til þess að ekkert dagsljós sæist lengur, en ferðin sóttist mjög hægt þar sem við vorum ekki á negldum skóm. Um hellisferðina 1954 segir prófessor H. Munger m.a.:

Þegar við gengum í hellinn, 14. febr. 1954, var hellisgólfið þakið ís, 200 metra inn frá opinu. Sums staðar höfðu myndast þyrpingar af íssúlum, er sumar voru 40 cm langar. Erfitt er að klifra eftir ísuðum steinum og ekki alveg hættulaust. Hvergi er hægt að drepa niður fæti nema á hálan ísinn, og hvergi er hægt að taka til hendi, nema á svellótta steinana. Slys gæti fljótlega viljað til, fótbrot eða annað, og ekki væri auðgert að flytja slasaðan mann eftir íshálum og ósléttum hellinum. Ísströnglar hanga frá þaki og sillum, sumir allt að 3 metrar á lengd.

Þessi lýsing hans gæti á margan hátt átt við um okkar ferð, þó með þeirri undantekningu að ég sá aðeins tvo ísströngla hanga frá þaki hellisins og var sá stærri í mesta lagi 2 metrar að lengd, en vissulega voru ísströnglar sem lágu utan á berginu niður af sillum víða voldugir og jafnvel 4 til 5 metrar að lengd. Þá getur prófessorinn þess að hvergi hafi verið hægt að styðja sig við íslausa fleti, en það átti ekki við í okkar tilfelli þar sem oft mátti styðja sig við íslausan vegginn að vestanverðu. En myndin hér að neðan gefur þó góða mynd af því sem við klöngruðumst yfir:

IMG_1831

Svo skemmtilega vill til að ég heimsótti þennan helli líka í september á síðasta ári. Þá var hellirinn algerlega íslaus. Hið sama var hins vegar ekki upp á teningnum hjá prófessornum þegar hann heimsótti hellinn í ágúst 1953. Hann skrifar:

í ágúst 1953 var litill ís í hellinum. Ís var einungis næst opinu og víðast hægt að krækja fram hjá honum. Jafnvel þótt ísinn sé horfinn er erfitt að fara um hellinn fyrir þá, sem ekki eru vanir fjallgöngum. Yfir eintómar grjóturðir er að fara, og víða er svo bratt, að erfitt er að klifra upp. Í hellinum eru yfir 20 stallar, 1—10 metra háir. Margir hafa komið í Raufarhólshelli. Aðeins fáir hafa gengið hann á enda.

Ég get vissulega tekið undir þetta, það er ekki beinlínis auðvelt að ferðast um hellinn, en mjög gaman að koma þarna og hef ég nú sett á dagskrána hjá mér að ganga hann inn að botni við tækifæri, en síðasta sumar fór ég aðeins að fyrsta stóra stallinum. Eins gerði ég núna.

url: http://pb.annall.is/2012-02-13/gengid-i-raufarholshelli-9-februar-2012/


© pb.annáll.is · Færslur · Ummæli