pb.annáll.is

AnnállAkureyrarAkademíanDeutschEvrópa Unga FólksinsJólKirkjanPersónur og leikendurÚr Glerárkirkju

« 58 atkvæði í biskupskjöri í Eyjafirði og Þingeyjarsýslum · Heim · Guðjón Samúelsson og ásýnd Akureyrar »

1/3 biskupsatkvæða í stóru prófastsdæmunum þremur

Pétur Björgvin @ 14.10 28/2/12

502 einstaklingar hafa kost á því að skila inn kjörseðli í biskupskosningum Þjóðkirkjunnar í marsmánuði. Eins og víða hefur komið fram eru þessar kosningar einstakar í sögu Þjóðkirkjunnar, m.a. vegna þess að nú fá formenn sóknarnefnda í fyrsta sinn að kjósa biskup. Leikmenn eru nú 64% kjörmanna, en svo nefnast þau sem mega kjósa. Áhugavert er að rýna í kjörskrána, en ný og endurbætt kjörskrá var birt á kirkjan.is fyrir nokkrum dögum. Vinsamlegast athugið að í gögnunum hér á eftir er um óyfirfarnar, fyrstu niðurstöður að ræða.

Á einfaldan hátt má segja að kjörmenn skiptist í tvo hópa, annars vegar vígða þjóna (biskupar, prestar og djáknar) og hins vegar leikmenn (þau sem ekki hafa tekið vígslu). Ef kynjaskipting er einnig skoðuð þá kemur í ljós að stærsti hópurinn eru karlkyns leikmenn (36%) og að næst stærsti hópurinn er kvenkyns leikmenn (28%). Karlkyns vígðir þjónar eru svo þriðji hópurinn (23%) og kvenkyns vígðir þjónar reka lestina (13%).

Áhugavert er að skoða hvernig atkvæðamagnið dreifist eftir prófastsdæmum, en vert að hafa í huga að landið er eitt kjördæmi í þessum kosningum. Ef stóru prófastsdæmin þrjú (Reykjavíkurprófastsdæmi vestra, eystra og Kjalarnesprf.) eru skoðuð þar sem 2/3 allra íbúa landsins sem skráðir eru í Þjóðkirkjuna búa, kemur í ljós að aðeins 1/3 kjörmanna býr og starfar á þessu svæði. Að sama skapi búa 2/3 kjörmanna dreift um byggðir landsins, á svæði þar sem 1/3 Þjóðkirkjumeðlima býr (smellið á mynd til að skoða hana stærri).

glaerur1

Áhugavert er einnig að skoða annars vegar kynjahlutfallið í hópi kjörmanna í hverju prófastsdæmi fyrir sig og hins vegar hlutfall vígðra þjóna í röðum kjörmanna. Ef eftirfarandi mynd er skoðuð (smellið á myndina til að stækka) þá sést að hvergi er kynjahlutfallið jafnara en í Austurlandsprófastsdæmi (48% konur). Í fjórum öðrum prófastsdæmum á landsbyggðinni er kynjahlutfallið innan ramma Jafnréttisstefnu kirkjunnar (40 – 60). Þegar kemur að stóru prófastsdæmunum þrjú verður dæmið flóknara, því ef ekki kæmu til sérþjónustuprestar og djáknar sem starfa á svæðinu, næðu prófastsdæmin ekki viðmiði Jafnréttisstefnunnar. Hlutfall vígðra þjóna er lægst 16% og hæst 48% (55%):

glaerur2177 kjörmenn búa og starfa í stóru prófastsdæmunum þremur, en þar eru eins og þegar er getið 2/3 þjóðkirkjumeðlima búsettir. Þessi hópur er mjög fjölbreyttur. 60% þessarar kjörmanna eru karlmenn, þar af vígðir þjónar 39 í prestsþjónustu og 18 á Biskupsstofu eða í sérþjónustu auk tveggja karlkyns djákna. Kvenprestarnir aftur á móti eru 24, þar af 9 á Biskupsstofu og í sérþjónustu, en einnig starfa 14 konur sem djáknar á svæðinu. Alls eru 55% kjörmanna á þessu stóra svæði í vígðri þjónustu. Hvergi annars staðar á landinu er hlutfall vígðra þjóna jafn hátt í hópi kjörmanna:

glaerur3

Ef landsbyggðin er hins vegar skoðuð kemur upp allt önnur mynd. Þar eru 317 á kjörskrá en aðeins 25% þeirra eru vígðir. Kynjahlutfallið er hins vegar mjög svipað, konur 41%, karlar 59%:

glaerur4

Í lokin er vert að nefna fyrir þau sem hafa nú lagt saman tölurnar 177 og 317 að það er hárrétt hjá þeim að það vantar 8 upp á svo hægt sé að ná samtölunni 502. En einmitt átta manns eru búsettir erlendis en hafa kosningarétt (íslenskt safnaðarstarf erlendis).

Nálgast má glærurnar í heild sinni sem pdf-skjal á vef mínum pb.is.

Tengt efni:

  • Pistill um kjörskrárrýni í upphafi febrúarmánaðar hér á annál.
  • Pistill um ímyndaða kjörskrá fyrir vígslubiskupskosningar hér á annál.
  • Pistill um hlutfall atkvæða í Eyjafjarðar- og Þingeyjarprófastsdæmi á trú.is

url: http://pb.annall.is/2012-02-28/13-biskupsatkvaeda-i-storu-profastsdaemunum-thremur/

Athugasemdir

Fjöldi 4, nýjasta neðst

Arna Grétarsdóttir @ 28/2/2012 18.52

Áhugavert að lesa þessa greiningu kjörmanna og vonandi íhugunarefni fyrir kirkjuþingsfulltrúa að leiðrétta atkvæðavægi milli landsbyggðar og höfuðborgarsvæðis.
Vil bæta við að prestar erlendis tilheyra sérþjónustunni og söfnuðurnir falla undir Reykjavíkurprófastsdæmi vestra.

Pétur Björgvin @ 28/2/2012 19.04

Sæl og blessuð Arna og þakka þér fyrir viðbrögðin. Eg kaus að hafa atkvæðin 8 sem tilheyra sérþjónustunni/safnaðarstarfinu erlendis sér, þar sem að ég var að bera atkvæðafjöldann saman við íbúafjölda á hverju svæði (skráðir í þjóðkirkju). Þær tölur hef ég ekki fyrir söfnuðina erlendis. Ég hef aðeins aðgang að opinberum tölum á vef Hagstofu og þar eru engar tölur um söfnuðina erlendis – eða hvað?

Hrós dagsins fá frambjóðendur og þjóðkirkjufólk | á+k @ 1/3/2012 17.47

[...] 1/3 biskupsatkvæða í stóru prófastsdæmunum þremur, Pétur Björgvin Þorsteinsson [...]

pb.annáll.is - » Lýðræði, jafnrétti og biskupskjör @ 28/3/2012 11.14

[...] jafnréttisskref því að nú eru konur í fyrsta sinn yfir 40% kjörmanna í biskupskosningum.# Hvorutveggja er [...]


© pb.annáll.is · Færslur · Ummæli