pb.annáll.is

AnnállAkureyrarAkademíanDeutschEvrópa Unga FólksinsJólKirkjanPersónur og leikendurÚr Glerárkirkju

« 16 ára í sóknarnefnd · Heim · Matur, fæði, næring? »

Kirkja sem horfir fram á veginn

Pétur Björgvin @ 08.07 9/3/12

Sigurdur-Arni

Þjóðkirkjan stendur á tímamótum. Þessa dagana er kosið til embættis biskups Íslands. 500 manns eru í hópi kjörmanna.  Í fyrsta sinn í sögu lands og þjóðar hafa fulltrúar sóknarbarna Þjóðkirkjunnar (sóknarnefndarformenn) kost á því að kjósa biskup. Djáknar kjósa líka í fyrsta sinn.

Kirkjan þarf á öflugum, hæfileikaríkum og sterkum trúarleiðtoga að halda. Í biskupsstól þarf að setjast einstaklingur sem er fær um að vera leiðtogi sátta og sameiningar, manneskja sem hefur metnað til góðra verka, vilja til að laða fram það besta úr þeim  mannauði sem í kirkjunni býr og réttlætiskennd sem slær í takti við þarfir fólksins.

Við, starfandi djáknar í Þjóðkirkjunni sem skrifum undir þessa grein, treystum dr. Sigurði Árna Þórðarsyni til þeirrar mikilvægu og vandasömu þjónustu sem biskup Íslands gegnir. Okkar upplifun af Sigurði Árna er sú að þar fari afskaplega hlýr maður sem veitir fólki og málefnum fulla athygli. Að okkar mati er Sigurður Árni sá prestur sem kirkjan þarf á að halda í biskupssæti sem leiðtogi sátta og sameiningar. Við sjáum fyrir okkur kirkju sem horfir fram á veginn með Sigurð Árna í broddi fylkingar. Við trúum því að viðmót hans, hæfileikar, orðsnilli, skilningur og metnaður skili Þjóðkirkjunni því sem hún þarf til að vaxa og eflast. Við treystum Sigurði Árna til að ganga erinda friðar og leiða kirkjuna með gestrisni til sátta án þess þó að kirkjan tapi stefnu sinni. Þess vegna kjósum við dr. Sigurð Árna Þórðarson, prest í Neskirkju og Kirkjuþingsmann, og hvetjum aðra til þess að kynna sér hvað Sigurður Árni stendur fyrir á kynningarvef stuðningsmanna hans, www.sigurdurarni.is .

4djaknarFjóla Haraldsdóttir, djákni
Gréta Konráðsdóttir, djákni
Pétur Björgvin Þorsteinsson, djákni
Þórey Dögg Jónsdóttir, djákni

url: http://pb.annall.is/2012-03-09/kirkja-sem-horfir-fram-a-veginn/


© pb.annáll.is · Færslur · Ummæli