pb.annáll.is

AnnállAkureyrarAkademíanDeutschEvrópa Unga FólksinsJólKirkjanPersónur og leikendurÚr Glerárkirkju

« Fótbolti, Úkraína og mannréttindi · Heim · Æskulýðsstarf kirkjunnar og menntun umsjónarfólks »

COUNCIL / ÞING sem aðferð í æskulýðsstarfi

Pétur Björgvin @ 21.40 1/5/12

KatrinBarbaraÍ mörgum menningarheimum hér áður fyrr var það algengt að sest væri niður í hring til þess að ræða alvöru lífsins og deila hugsunum um hamingjustundir sem og um þær áskoranir sem einstaklingarnir stóðu frammi fyrir. Gjarnan brann eldur í miðjunni og á meðan fundi stóð ríkti jafnræði meðal þeirra sem voru á fundinum. Aðeins einstaklingurinn sem hélt á einhverju sem sumir kalla á ensku í dag „talking stick“ mátti tala. Hlutverk hinna var að hlusta. Í dag er þessa hefð ekki aðeins að finna í ákveðnum menningarheimum sem hafa haldið í þessa gömlu hefð, heldur hrífast sífellt fleiri einstaklingar í „hinum vestræna heimi“ af þeirri andlegu viðleitni (e. spirituality) og menningu sem tengist slíkum fundum.

Símenntun í boði Evrópusambandsins

Í dag, 1. Maí 2012 er ég á heimleið af námskeiði sem boðið var upp á, á vettvangi Evrópu Unga Fólksins. Námskeið var fyrir einstaklinga sem gegna ábyrgðarhlutverki í æskulýðsstarfi og hefðu hug á að nýta sér þessa aðferð að einhverju eða öllu leyti í æskulýðsstarfinu. Námskeiðið fór fram í „Tiroler Bildungsinstitut Grillhof“ í þorpinu Vill fyrir ofan Innsbruck. 18 þátttakendur frá Þýskalandi, Sviss og Austurríki tóku þátt auk undirritaðs. Umsjón með námskeiðinu höfðu þær Katrín og Barbara og því taldi hópurinn í heild sinni 21 einstakling.

Námskeiðið var fjármagnað af landsskrifstofu Evrópu Unga Fólksins í Austurríki og ferðir greiddar að stærstum hluta af landsskrifstofum þeirra fjögurra landa sem áttu þátttakendur á námskeiðinu. Í öllum löndum Evrópu sem taka virkan þátt í svonefndri ungmennaáætlun ESB er að finna slíkar skrifstofur. Ákveðnu fjármagni er veitt frá Brüssel til þessara verkefna og gilda fastmótaðar reglur um úthlutun þeirra (Sjá nánar á euf.is) en meðal annars er hægt að fjármagna námskeið fyrir umsjónarfólk æskulýðsstarfs þó svo að almennt þurfi styrkurinn að nýtast fólki á aldrinum 13 til 30 ára.

Að skapa upplifunarvettvang fyrir ungt fólk

Stefan, Sarah, Josef, Iliona, Miriam, Daniel, Petra, Petra, Karen, Steffi, Julia, Bianca, Leo, Andreas, Andrea, Jana, Raphaela og Monika eiga það öll sameiginlegt með mér að vera á einn eða annan hátt tengd starfi með ungu fólki. Sum eru kennarar, önnur eru æskulýðsþjálfarar, æskulýðsfulltrúar eða starfa sem sjálfboðaliðar í ungmennahreyfingum og/eða óformlegum hópum ungs fólks. Sum vissu fyrirfram um hvað aðferðin sem kynnt var til leiks á námskeiðinu snérist, önnur höfðu eins og ég aðeins helstu grunnupplýsingar sem nægðu þó vel til þess að átta sig á fyrirbærinu sem hér var kynnt til leiks.

Almennt virtist hvati þeirra sem mættu á námskeiðið vera sá að þau vildu verða færari í því að hjálpa ungmennum til að tjá sig og leita nýrra leiða til eflingar á ungmennalýðræði. Úr orðum þátttakenda í lok námskeiðsins má lesa að þeim þótti öllum að það fælust stórkostleg tækifæri í þessum ÞINGSKÖPUM.

Jafningjaþing

WayOfCouncilYfirskrift námskeiðsins var THE WAY OF COUNCIL eftir samnefndri bók frumkvöðla þessa starfs (sjá mynd hér til hægri). Titill þýskrar þýðingar á bókinni gefur ekki síður góða mynd af innihaldi námskeiðsins: DER GROSSE RAT. Hér er semsagt verið að vísa til fyrrnefndrar hefðar þar sem sest er á ÞING þar sem allir eru jafnir. Og í því felst stærsta áskorunin hvort heldur nota á aðferðina í skólastarfi eða æskulýðsstarfi. Fullorðni einstaklingurinn sem hvetur börnin eða unglingana til þátttöku gerist að fullu þátttakandi í hringnum og deilir sinni persónulegu upplifun. Þetta þykir mér í góðum takti við þær kenningar um virka þátttöku ungs fólks sem settar hafa verið fram í tengslum við Hart‘s ladder of participation þó svo að þau sem standa á bak við COUNCIL orði hlutina á andlegri hátt.

Forsendur fyrir slíku þingi eru þó nokkrar. Meðal annars er mikilvægt að þátttaka sé valfrjáls, að rýmið þar sem þingið fer fram sem og umsjónarfólkið sé til þess fallið að veita þátttakendum öryggistilfinningu. Þegar hópur telur sig reiðubúinn að setjast á þing er sest í hring (helst á gólfið) og aðalreglan kynnt til leiks:

  • Aðeins sá sem heldur á ,,talking stick“ má tala

Við hlið þessarar aðalreglu eru tvær meginreglur

  • Öll þátttaka er af fúsum og frjálsum vilja, hægt að hætta hvenær sem er eða taka sér hlé.
  • Á hverjum tíma stendur hvaða einstaklingi sem er til boða að segja STOPP og þá er gert hlé á samtalinu sem á sér stað og brugðist við eftir aðstæðum.

Þinginu er ætlað að þjálfa fólk í að tala og hlusta af hjartans einlægni, læra að taka tillit til hópsins sem heildar og reyna að forðast málalengingar. Ef kafað er dýpra í þær bækur sem gefnar hafa verið út í tengslum við þetta starf verður einnig ljóst að takmarkið er enn æðra, það að skapa meðal þátttakenda nána vitund um náttúruna, um okkur manneskjurnar sem hluta af náttúrunni og þróa hugarfar sem vekur einlæga von í hjörtum þátttakenda.

Andleg viðleitni og æskulýðsstarf

Ég ákvað að sækja um að komast að á þessu námskeiði því að mér lék forvitni á að vita hvaða hugmyndir Katrin og Barbara sem og þátttakendur allir hefðu um notkun slíkra þingskapa í starfi með börnum og unglingum. Sjálfum mér (og sjálfsagt fleirum sem mig þekkja) til mikillar undrunar var ég aldrei þessu vant á engan hátt upptekinn af því að skammast fyrirfram yfir því að hér væri um ameríska hugmynd að ræða, en ég get verið voða viðkvæmur fyrir þeim. Og þar fá Katrín og Barbara stórt hrós, þeirra nálgun var alfarið í takt við þann veruleika sem við búum við í Evrópu í dag.

Andrea_josef_steffiEn vel má vera að ef fólk ætlar að taka hugmyndina alla leið að fyrirmynd höfunda frá BNA þá rekist fólk á veggi því að mér segir svo hugur að umgangur með andlega viðleitni sé um margt viðkvæmari í skólum sérstaklega í Evrópu, umfram það sem gerast í BNA. Þannig ræddum við það til dæmis þann ásetning sem er að baki þinganna að þau sem taka þátt orði hlutina þannig að það sé til góðs fyrir það sem er æðra. Hér ræddum við hugtakanotkunina nokkuð. Í ljós kom að á enskunni er talað um „the third“ sem nokkurs konar þriðju vídd. Katrín og Barbara höfðu ákveðið að notast við þýska orðið „höheres“. Þegar við fórum að ræða þetta ákváðum við fyrst að nota tala líka um hið þriðja en eftir frekari umhugsun kom Barbara með þá hugmynd að tala um ,,Ganzheit“ eða heildina og þykir mér það mjög heppilegt því það ætti að geta rúmað viðhorf úr hvaða lífsskoðunarhópi sem er.

Hjartað

Hjartað leikur mikilvægt hlutverk í þeim þingsköpum sem hér voru kynnt til leiks. Lögð er rík áhersla á að hugsanir sem komi frá heilanum séu lítilvægar, en hugsanir sem komi frá hjartanu séu þær sem sérstaklega séu velkomnar þegar tekið er til máls á jafningjaþinginu. Þannig felst þátttaka byrjenda í jafningjaþingi í því að finna fyrir hverju hjarta hans/hennar slær. Að þessu leiti er aðferðafræðin þó nokkuð frábrugðin hugmyndum um ungmennalýðræði, en sjálfur finn ég hjá mér þörf til þess að velta tengslum þessara þinga frekar fyrir mér í ljósi þeirrar eflingar sem þarf að fara fram á vettvangi ungmennalýðræðis. En kannski á þetta fulla samleið, ég á bara eftir að melta þetta – námskeiðinu lauk jú í dag.

Evrópa unga fólksins skapar tækifæri

Þar sem ég sit í lest á leiðinni á flugvöllinn er mér ofarlega í huga þau tækifæri sem EUF-starfið skapar fyrir ungt fólk og þau sem starfa með ungu fólki. Af samtali við þátttakendur varð mér enn á ný ljóst mikilvægi þess að þau sem gefa af sér til ungs fólks fái tækifæri til eflingar og persónulegrar styrkingar sem geti hjálpað þeim til þess að (halda áfram að) standa sig í æskulýðsstarfinu.

Það voru glöð en þreytt hjörtu sem héldu heim um miðjan dag í dag. Sjálfur segi ég: Takk fyrir tækifærið, námskeiðið skilar mér áfram, bæði persónulega og vinnulega séð.

[Þessi pistill er jafnframt skýrsla mín til landsskrifstofu EUF á Íslandi sem fjármagnaði ferð mína.]

Pétur Björgvin Þorsteinsson, djákni í Glerárkirkju, Evrópufræðingur (MA) og æskulýðsþjálfari.

url: http://pb.annall.is/2012-05-01/council-thing-sem-adferd-i-aeskulydsstarfi/


© pb.annáll.is · Færslur · Ummæli