pb.annáll.is

AnnállAkureyrarAkademíanDeutschEvrópa Unga FólksinsJólKirkjanPersónur og leikendurÚr Glerárkirkju

« Forvitni sem lykill að fjölmenningu · Heim · Die Elfen ziehen um »

Ný styrktaráætlun: Erasmus fyrir alla

Pétur Björgvin @ 15.20 15/5/12

Við sem störfum á vettvangi Evrópu Unga Fólksins (og örugglega fleiri) fylgjumst nú mörg hver spennt með þeirri þróun sem á sér stað varðandi styrki í fræðslu- og menningargeiranum hjá Evrópusambandinu. Ein af hugmyndunum sem er komin langt á veg í meðförum Framkvæmdastjórnar ESB og að hluta hjá Ráðherraráðinu og í undirbúningsumræðum á Evrópuþinginu er styrktaráætlun sem hefur gengið lengi undir vinnuheitinu ERASMUS FOR ALL en allt er breytingum háð.

prgr3 (50)

Á vef þessarar nýju áætlunar er Erasmus fyrir alla kynnt til leiks sem hin nýja styrktaráætlun ESB á vettvangi menntunar, námskeiðahalds, æskulýðsstarfs og íþrótta – vissulega að því gefnu að sú tillaga sem Framkvæmdastjórnin lagði fram 23. nóvember 2011 nái fram að ganga. Erasmus fyrir alla er semsagt ætlað að vera einn hattur yfir allt það sem ESB hefur verið að gera til að styrkja og efla fjölþjóðleg tengsl á fyrrnefndum vettvangi og kemur þannig í stað fyrir sjö núverandi styrktaráætlanir. Það er von þeirra sem eiga hugmyndina að í þessu felist sparnaður, komið sé í veg fyrir tvíverknað og að gæði aukist. Erasmus fyrir alla á að gilda fyrir árin 2014 til 2020.

Hvað er verið að sameina?
Erasmus fyrir alla kemur í staðinn fyrir sjö eldri áætlanir:

Þrjú mengi
Erasmus fyrir alla er skipt upp í þrjú mengi eða meginstef.

  1. Fyrsta mengið snýst um námstækifæri fyrir einstaklinga, innan ESB og utan. Slík námstækifæri geta verið bóklegt nám eða þátttaka í annars konar námskeiðum, starfsþjálfun, mannaskiptaverkefni milli skóla og annarra stofnana til þess að efla starfsþróun viðkomandi einstaklinga sem og verkefni á vettvangi óformlegs náms, m.a. sjálfboðið starf.
  2. Annað mengið snýr að samstarfi milli menntastofnanna, æskulýðssamtaka, fyrirtækja, bæjar- og héraðsstjórna og frjálsra félagasamtaka. Markmið slíks samstarfs væri að hvetja til þróunar og eflingar á frumkvöðlastarfi á vettvangi menntunar, þjálfunar og virkrar þátttöku ungs fólks um leið og fólki væri gefinn kostur á að þróa sig frekar sem hæfa starfsumsækjendur, auka og efla eigin sköpunargleði og þjálfa eigin frumkvöðlakraft.
  3. Þriðja mengið mun snúa að stefnumótun á vettvangi stjórnmálaafla og stjórnsýslunnar innan ESB og í samstarfi við önnur ríki utan ESB. Hér yrði sérstök áhersla á því að auka ígrunduð vinnubrögð (e. evidence based) og gera stefnumótunarvinnuna sem slíka faglegri, meðal annars með því að viðkomandi aðilar skiptist á upplýsingum um góð vinnubrögð. Í þetta mengi fellur stuðningur sem snýr að aðstoð til að koma á starfsháttum sem samþykktir eru á vettvangi ESB og snúa að gagnsæi og lýðræðislegum vinnubrögðum, en einnig fjárhagslegur stuðningur við fjölþjóðleg rannsóknarverkefni, uppbyggingu byggða á Bologna-ferlinu og Kaupmannahafnar-yfirlýsingunni um starfsmenntun.

19 milljarðar Evrur til að styrkja 5 milljón manns á sjö árum
Reiknað er með að á þessum sjö árum muni yfir 5 milljón manns (á ESB svæðinu búa 500 milljónir) notið góðs af þessari styrktaráætlun, þar af rúmlega 500 þúsund í ungmennaskiptaverkefni og sjálfboðið starf (gamla EUF áætlunin). Hjá samstarfsfólki mínu víða í Evrópu heyri ég að sumir óttast að aðferðafræði óformlegs náms týnist í þessari nýju áætlun sem vissulega horfir mikið á formlega menntun, samanber að reiknað er með að 2.2 milljón manns geti farið í skiptinám milli háskóla á tímabilinu. En það er nú svolítið til skiptanna eða 19.000.000.000 Evrur (er það ekki svona sem maður skrifar 19 billion Euro?) á tímabilinu.

Enn sem komið er fara fram umræður um málið á vettvangi Framkvæmdastjórnarinnar, nánar tilgetið í nefnd um menntamál (Educational Committee) og það er danski forsætisráðherrann / danska ríkisstjórnin sem leiðir þá vinnu þar sem þau eru í forsæti fyrir ESB þetta hálfa árið. Í þeim umræðum hefur verið reynt að koma að tillögu um að æskulýðsmálin verði sýnilegri. Þær umræður náðu nýju hámarki á fundi í síðustu viku:

Sókn í þágu borgaranna?
Miðvikudaginn 11. maí og  stýrðu Uffe Elbæk, menningarmálaráðherra Danmerkur og Christine Antorini, barna- og menntamálaráðherra Danmerkur 3164 fundi Ráðherraráðsins, en þar voru að þessu sinni samankomnir fagráðherrar sem fara með mennta-, æskulýðs-, menningar- og íþróttamál hjá aðildarríkjum ESB, þ.e. Ráð menntunar, ungmenna, menningar og íþrótta (e. Education, youth, culture and sport). Fundargerð fundarins er aðgengileg á netinu – fjallað er um Erasmus for All frá og með bls. 18.

Þar kemur fram að Ráðið fyrir sitt leyti að haldið yrði áfram vinnunni við Erasmus fyrir alla á grunni tillögu nr. 17188/11. En tekið er fram að Framkvæmdastjórnin hafi með þessari tillögu tekið þá ákvörðun að setja meiri pening í þessi verkefni heldur en gert er nú sem stendur en hafa þarf í huga að fjárlagagerð ESB fyrir tímabilið er ekki lokið. Þá kemur fram að Kýpverjum sem taka við forsæti ESB um mitt ár er falið að leiða samningaviðræður við Evrópuþingið um einstök efnisatriði áætlunarinnar. Stefnt er að lokasamþykkt um málið snemma árs 2013 en þá verða Írar komnir í hlutverk formennskuríkis ESB.

Umræðan
Sú útgáfa sem kynnt var á þessum fundi gerir ráð fyrir sérstökum ungmenna- eða æskulýðsstarfskafla með fráteknum fjármagni fyrir þann hluta áætlunarinnar. Þetta er gert samkvæmt ósk nokkurra aðildarríkjanna um aukin sýnileika á stuðningi við ungmenni utan skólakerfisins. Svo virðist sem hér sýnist sitt hverjum og óljóst hvort að þessi hluti verður áfram inni, að minnsta kosti setur Framkvæmdastjórnin stóra fyrirvara við það.

Á fundinum kom fram að flest aðildarríkjanna styðja þá straumlínulögun sem verður á styrktaráætlunum ESB með því að fella umrædd styrktarprógrömm undir eitt prógramm eða áætlun. En nokkur umræða er enn um nafnið á nýju áætluninni (ekki má nú seinna vera, innihaldið er þó engan veginn ákveðið). Danmörk er meðal þeirra ríkja sem eru hrifin af Erasmus nafninu á meðan önnur ríki eru á móti.

Það verður áhugavert að fylgjast með framvindu þessa máls og auðvitað hvaða þýðingu þessi vinna öll hefur fyrir Ísland (utan ESB) því að við höfum ekki verið aðilar að öllum þáttum þessara sjö áætlana sem nú falla undir einn hatt.

url: http://pb.annall.is/2012-05-15/ny-styrktaraaetlun-erasmus-fyrir-alla/


© pb.annáll.is · Færslur · Ummæli