pb.annáll.is

AnnállAkureyrarAkademíanDeutschEvrópa Unga FólksinsJólKirkjanPersónur og leikendurÚr Glerárkirkju

« 10 prestar eða 20? · Heim · Bald hat Island zwei neue Bischöfinnen »

Gömul ferðasaga

Pétur Björgvin @ 14.47 3/6/12

HelenaRut

Hef þörf fyrir að endurupplifa ferð sem ég fór í til Frakklands fyrir margt löngu.  Ákvað að endurupplifa hana með því að segja frá henni hér.Ferðin hófst eiginlega laugardaginn 8. ágúst 1998.  En þann dag pökkuðum við (Pétur, Regina, Samuel og Helena) dótinu okkar í bílinn og ókum til Munsingen.  Við eyddum svo laugardeginum og hluta af sunnudeginum í það að raða í hillur og skúffur í hjólhýsið hans tengdapabba.  Um sjöleytið á sunnudagskvöldinu ókum við svo af stað.  Leiðin lá þvert yfir suðurþýsku alpana til landamæranna við Schaffhausen og þaðan framhjá Zurich í gegnum Bern til Genf. Frá Genf lá leiðin til Grenouble og þaðan svo í áttina til Cannes (sem er jú þekkt fyrir kvikmyndahátíðina).  Klukkan 11 á mánudagsmorgninum vorum við svo komin á leiðarenda:  Í nágrenni lítils þorps sem heitir Montpezat við vatn sem heitir Lac St. Crox í hinu þekkta Verdon-gljúfri settumst við að á tjaldstæði sem heitir Coteau de la Marine.  Þetta er heilmikið túristasvæði og þarna dvöldum við í eina viku. Ég fór meðal annars í eins dags göngu og hjólreiðaferð með Hartmut.  Við lögðum upp klukkan átta um morguninn og ókum fyrst í uþb eina klukkustund að þeim stað þar sem við ætluðum að enda gönguna.  Þar læstum við hjólunum okkar við staur og ókum uþb 16 km til baka.  Þar lögðum við bílnum við fjallakofa frönsku alpafélaganna sem heitir “Challet du Marlene” og lögðum af stað.  Fyrstu 45 mínúturnar liggur leiðin frá þessum fjallakofa niður að fljótinu Verdon.  Á þessum 45 mínútum lækkar maður sig uþb um 200 hæðametra.  Þá liggur leiðin upp með fljótinu (yfirleitt er fólki ráðlagt að ganga niður með fljótum en einmitt á þessum vegi eru allir sammála um að það sé um að gera að labba upp í móti til þess að þurfa ekki að labba þessa 200 hæðametra í einu yfirleitt í steikjandi sól.  Hitinn þennan dag við fjallakofann var 34 gráður á Celsíus en það var eitthvað kaldara í skugganum niður í gilinu (kannski 25 gráður).

Leiðin lá semsagt svo upp með þessu stórfenglega fljóti þangað til að við komum að Colour Samson en þar biðu fákarnir okkar.  Leiðin sem við höfðum gengið er nefnd í höfuðið á manni sem hét Martel og var mikill brautryðjandi í ferðafélagsmálum í Frakklandi á síðari hluta síðustu aldar. Og það var einmitt hann sem stóð fyrir því að þessi gönguvegur í þessum eyðidal var lagður í lok síðustu aldar. Til þess að gera hann göngufæran þurfti t.d. að sprengja leiðina með dýnamíti á einum stað.  En vinsældir þessa vegs urðu svo til þess að í kringum 1930 datt nokkrum verkfræðingum hjá frönsku rafmagnsveitunum í hug að það væri sniðugt að virkja þetta fljót og þess vegna hófu þeir heilmiklar framkvæmdir í gljúfrinu og sprengdu og boruðu ótrúleg göng.  Á meðan að á heimstyrjöldinni síðari stóð lá vinnan niðri og var hún aldrei tekin upp aftur því að staðsetningin þótt óhentug.  Þessi göng eru þess vegna hluti af gönguleiðinni í dag.  Eftir að hafa verið á 5 klukkutíma göngu settumst við semsagt á reiðhjólin og hjóluðum af stað. Þó svo að gönguferðin hefði endað 120 hæðametrum hærra heldur en fjallakofinn stendur lá leiðin á hjólunum til að byrja með upp í móti.  Að loknum 150 hæðametrum lá leiðin niður í móti og ég hélt að ég yrði ekki eldri í síðustu brekkunni áður en að við komum að staðnum þar sem að við höfðum skilið bílinn eftir.  Það er kannski gaman að segja ykkur frá því að við fengum nasaþef af frönsku hjálparsveitunum við björgunarstörf.  Ég hafði lesið um það að frönsku hjálparsveitirnar sem starfa í Verdon væru þekktar fyrir góða skipulagningu og nákvæmni við störf og mjög gott og skilvirkt kerfi.  Það var svo einmitt í miðjum hjóltúrnum að við sáum hvar þyrla lenti fyrir framan litla ísbúð þar sem við vorum að kaupa okkur ís.  Þá fyrst skildum við hvað allir þessir hermenn voru að gera á staðnum því að þeir sáu um það að þyrlan hefði pláss til að lenda.  Stuttu seinna kom sjúkrabíll, neyðarlæknir og slökkvilið á staðinn og allskonar útbúnaður var settur í þyrluna, björgunarmenn festu á sig sigbúnað og svo hvarf þyrlan ofan í mjótt gilið. Meira vitum við ekki, en mér fannst eins og gilið væri heldur mjótt fyrir svona stóra þyrlu en þeir eru víst vanir!!

Að lokinni viku dvöl við Verdonfljót lá leið okkar að Miðjarðarhafsströndinni.  Þar fundum við tjaldstæði sem heitir “Camping au Paradis des Campeurs” og er við ströndina La Gaillarde Plage í litlu þorpi sem heitir Les Issambres og er 45 kílómetra austur af Cannes.  Þetta var alveg yndislegt að dvelja þarna.  Við fórum meðal annars í hjólreiðatúr svilarnir með alla krakkana semsagt tvo krakka á hvoru hjóli.  Hartmut er nefnilega með svo sniðug sæti fyrir stærri krakka á slánni og þannig var þetta lítið mál.  Við völdum okkur að vísu leið sem lá frá 0 hæðametrum upp í 145 hæðametra og aftur niður í núllið en við skiluðum okkur í kvöldmat.  Meðal annars sáum við á þessari leið kaktusa sem stóðu í blóma og báru þegar fíkjur!  Þá fyrst fattaði ég hvað ég var kominn rosalega sunnarlega á jarðkringlunni.

Við stoppuðum við veginn til þess að skoða þessa fíkjukaktusa og þegar að við komum að hjólunum aftur voru krakkarnir orðnir svolítið svangir og ég tók upp kexpakka. En einmitt þegar ég var að gefa krökkunum kex gerðist óhappið.  Helena Rut smeigði sér framhjá mér og hljóp út á götu í sömu mund og bíll með kom á fleygiferð eftir götunni. Um leið og ég stökk út á götu og greip í Helenu heyrði ég væla í bremsunum og þegar ég lág flatur fyrir utan veg með Helenu grátandi ofan á mér skildi ég fyrst að Helena hafði fyrir Guðs mildi sloppið ómeidd!!  Helena var búin að jafna sig eftir 15 mínútur en ég er enn að jafna mig, þeas ég meiddist ekki en mér brá meira heldur en nokkru sinni á ævinni.  En ég er Guði mínum alveg rosalega þakklátur að hann skildi hafa varðveitt okkur þennan daginn.

Síðasta laugardaginn fórum við svo í stærri göngutúr í fjallaklasa sem heiter Esterell Massiv og liggur alveg við ströndina, 20 kílómetra frá Cannes.  Við gengum þann daginn í 25 stiga hita upp á 453 metra hátt fjall og nutum útsýnisins.  Samuel gekk alla leið með upp og niður aftur og var ótrúleg hress að lokinni 5 klukkustunda gönguferð. Sérstaklega þótti mér gaman að sjá hvernig hann tók á fjallgöngunni þegar að hann þurfti að klifra upp stærri steina eða halda sér í handriði þar sem að vegurinn var mjór:  Samuel er mjög fótviss og ekki til lofthræðsla í honum.

Á sunnudeginum eftir hádegi lá svo leiðin aftur í Verdongljúfrið.  Við völdum svolítið aðra leið heldur en viku áður og þannig fórum við yfir tvö skörð í 1200 metra hæð.  Þetta voru oft mjóir og erfiðir vegir og við vorum oft fegin að vera bara með lítið hjólhýsi.  Við eyddum svo seinnipartinum við lítið vatn í gljúfrinu og lögðum svo í hann klukkan níu um kvöldið.  Klukkan tvö um nóttina lögðum við bílunum við bensínstöð á hraðbrautinni hjá Grenouble og sváfum þangað til að umferðarniðurinn vakti okkur um áttaleytið á mánudagsmorgninum.  Ég vissi að það var farin pera í bremsuljósinu hjá mér svo að ég byrjaði daginn á því að kaupa mér peru og skipta um hana.  En þá kom í ljós að peran var í lagi.  Þremur klukkustundum seinna vorum við búin að gera við ljósatengið á bílnum en það hafði ekki skilað bremsuljósunum áfram til hjólhýsinsins.  Sú von okkar að þar með væru öll vandamál úr sögunni rættist hins vegar ekki.  Ferðin til Genf gekk að vísu ágætlega en í Sviss fór að bera á rafmagnsleysi hjá mér og eftir að hafa ekið í gegnum 1600 metra löng göng í Schaffhausen án þess að hafa nokkuð rafmagn ákvað ég að nú gæti ég ekki ekið lengra.  En heppnin var sú að Hartmut var á eins bíl og við skiptum einfaldlega um rafgeyma, því að altenatorinn hjá honum var í lagi og þannig keyrðum við heim.  Við vorum orðin þreytt þegar við lentum í Munsingen klukkan níu á mánudagskveldi. Við þrifum svo hjólhýsið á þriðjudag og ókum heim til Hnetuþorps.

Stressið í æskulýðsstarfinu var svo búið að ná yfirtökum á lífi okkar fyrir morgunmat á miðvikudeginum. Viku seinna héldum við aftur af stað til Frakklands, en nú á vegum æskulýðsstarfsins með hóp. Myndir frá þeirri ferð eru aðgengilegar á myndavefnum mínum: flickr.com/photos/pjebje

url: http://pb.annall.is/2012-06-03/gomul-ferdasaga/


© pb.annáll.is · Færslur · Ummæli