pb.annáll.is

AnnállAkureyrarAkademíanDeutschEvrópa Unga FólksinsJólKirkjanPersónur og leikendurÚr Glerárkirkju

« Bald hat Island zwei neue Bischöfinnen · Heim · FRUMRAUN – ELDRAUN – RAUN »

Að umbreyta, sætta og efla

Pétur Björgvin @ 11.00 23/6/12

Boðun í síbreytilegu samhengi er íslenskt heiti á riti Lúterska heimssambandsins sem kom út hér á landi árið 2006 (hér). Nú er annað rit sambandsins í sömu ritröð komið út: Þjónusta í síbreytilegu samhengi (hér). Bæði ritin hafa sama undirtitil: Að umbreyta, sætta og efla.

Í inngangsorðum dr. Kjell Nordstokke, forstöðumanns Boðunar- og þróunarsamvinnudeildar Lúterska heimssambandsins (þegar ritið kom út) og ritstjóra ritsins kemur fram að við val á þessum þremur orðum sem þematískri yfirskrift verksins þá hafi ekki verið litið svo á að eitt þeirra sé mikilvægara en annað, miklu fremur að þau séu jafnmikilvæg og verki saman. Um leið megi ekki líta svo á að þau séu mikilvægari en mörg önnur hugtök á vettvangi díakoníunnar. Þannig gæti einnig staðið þarna, að lækna, leiðbeina og næra. En öll þessi hugtök eins og mörg fleiri eiga það sameiginlegt að í kristnum skilningi eiga þau upphaf sitt í umhyggju Guðs fyrir sköpuninni og hjálpræðisverki Krists.

Þessi skilningur, að díakonían sé samofin vitnisburði kirkjunnar í heiminum er eitt meginstefið í ritinu.  Lögð er áhersla á að við öll sameinumst um að horfa á sköpunina sem eina heild, því þjáningin snerti öll svið tilverunnar, rétt eins og umhyggjan og umbreytingin. Fókus okkar hljóti að vera á hinum jaðarsettu, mikilvægt sé að við hlustum vel á raddir þeirra, hvort heldur þau hafa verið gerð hornreka innan kirkjunnar eða í samfélaginu yfirleitt.

Með ritinu er hugtakið díakonía innleitt inn í íslenskan hugtakaheim með sterkari hætti en hingað til, enda hefði væntanlega verið erfitt að þýða suma hluta ritsins án þess, því að notkun hugtaka eins og þjónusta, kærleiksþjónusta eða jafnvel líknarþjónusta hafa takmarkað skilning okkar á hugtakinu. Því að díakonían er þátttökumiðuð, hún byggir á þátttöku safnaðarins og hún byggir á þátttöku þess sem þarf aðstoð við að rísa upp. Sjálfur hef ég valið að tala um að díakonía sé það að við tökum höndum saman svo að bæði getum staðið, en ekki það að þú réttir mér höndina svo ég geti staðið upp. Þannig segir m.a. í ritinu (bls. 15):

Þjónustan – díakonían getur því aðeins gegnt hlutverki sínu í að móta betri framtíð þegar hún virðir reisn, hæfileika, og reynslu sérhvers einstaklings. Allir eiga rétt á því að hlustað sé á sögu þeirra og reynsla þeirra tekin alvarlega. Einungis með því móti verða þeir þátttakendur í breytingum til hins betra.

Minnt er á að ráðstefna Lúterska heimssambandsins sem haldin var í Afríku 2006 var samþykkt ályktun um fátækt og hlutverk kirkjunnar. Ályktunin er prentuð í heild sinni í ritinu (bls. 17) og er hún svohljóðandi:

Á tímum sem þessum verður að fordæma þau syndsamlegu öfl sem viðhalda örbirgð. Slík öfl halda áfram skefjalausri rányrkju á landi okkar og ræna milljónum manna réttinum á daglegu brauði og mannsæmandi lífi, sem þeir hafa af sjálfum Guði þegið. Þessi öfl birtast í óréttlátu efnahagskerfi, vaxandi átökum og ofbeldi og því að fólk neyðist til að flýja átthaga sína. Fátækt veldur því einnig að HIV-smit og alnæmi breiðist hraðar út en ella. Fólk neyðist til þess að láta fyrir berast í skjóli undir brúm og leita sér matar á sorphaugum og í ruslatunnum. Karlar, konur og börn hafa verið svipt rétti sínum og eiga þess engan kost að nýta meðfæddar gáfur og hæfileika. Meðal ungs fólks fer þeim hraðfjölgandi, sem eru atvinnulausir og án vonar um betri framtíð. Í nær öllum aðstæðum snauðra eru það þó konurnar sem bera þyngstu byrðarnar, sem stynja undan stöðugri áþján. Þetta ástand er í senn með öllu óþolandi og syndsamlegt.

Þjónusta í síbreytilegu samhengi er ákall til kirkjunnar um að breyta vinnubrögðum sínum, mikilvægt sé að þjónustan taki mið af umhverfi sínu, bæði í verki og kenningum. Kirkjan er hvött til að ganga djarflega fram í þjónustu við þjáða og utangarðsfólk, minnt er á að henni er lögð sú ábyrgð á herðar að halda ávallt á lofti réttlæti og friði gagnvart allri sköpuninni. Sóknarnefndir, öll þau sem fara með stjórnunarvald í kirkjunni þurfa að forgangsraða og hafa áhrif á þá vigt sem gefin er ólíkum þáttum starfsins. Þau geta því haft úrslitaáhrif á það hvort að kirkjan tekur þátt í að byggja upp félagslega samheldni, bæði í eigin nærumhverfi, en einnig í víðara samhengi. Hér ítreka höfundar ritsins mikilvægi þess að margt sem við gerum á heimavelli hafi áhrif á heimsvísu. Gott dæmi þar um er „fair trade.“

Spurt er hvernig díakonía sem orðin er til fyrir alveg ákveðnar hugsjónir brugðist við þeim aðstæðum sem uppi eru í samfélaginu í dag í samhengi við ríkjandi viðhorf til kirkju og kristni. Hver er virðisaukinn af díakoníunni fyrir samfélagið?

Bent er á í þessu samhengi að díakonían getur verið smitandi og eftirfarandi saga sem höfð er eftir Nelson Mandela sögð:

Maður er á ferð. Hann kemur í þorp og er veittur beini án þess að hann þurfi að biðja um það. Heimamenn hafa ofan af fyrir honum. Þannig er ubuntu. En það kemur ekki í veg fyrir að hver og einn þurfi ekki að spyrja sig hvað hann geti lagt af mörkum til að bæta samfélag sitt.

Hér segir Mandela sögu úr sínum menningarheimi og kynnir fyrir okkur hugtakið ubuntu. Í hugtakinu felst sá mannskilningur að einstaklingur sé ekki aðeins hann sjálfur heldur er hann skilgreindur út frá tengslum sínum við aðra.

Mín spurning í dag er: Hvernig skilgreinum við okkur hér heima á Íslandi? Sem kirkja? Sem einstaklingar?

Sjá einnig frétt á glerarkirkja.is um útkomu þessa rits (hér).

url: http://pb.annall.is/2012-06-23/ad-umbreyta-saetta-og-efla/


© pb.annáll.is · Færslur · Ummæli