pb.annáll.is

AnnállAkureyrarAkademíanDeutschEvrópa Unga FólksinsJólKirkjanPersónur og leikendurÚr Glerárkirkju

« Seid in ihm verwurzelt · Heim · Úr gestabókum Ástjarnar »

Glerá, mórauð eða rauð, samt ekki gerð af SÍS

Pétur Björgvin @ 19.08 3/5/13

Nokkrar umræður hafa skapast í netheimum í tilefni af því að litarefni rann út í Glerá á Akureyri. Á þó nokkrum stöðum hef ég séð vitnað í vísukorn af því tilefni og þá gjarnan látið fylgja að vísan sé um Glerá og höfundur hennar fyrrverandi alþingismaður og ráðherra. Þar sem ég er þessu ekki sammála (hvorki að Glerá sé gerð af SÍS né að alþingismaðurinn sé höfundurinn) ákvað ég að minna á skrif um þetta. Meti svo hver fyrir sig. Ábendingar um frekari heimildir vel þegnar (gjarnan á netfangið pthorsteinsson[hjá]yahoo.com).

1978:

Í Vísnabálki í Íslendingi 9. maí 1978 (17. tbl.), bls. 5 segir:

Við byrjum þáttinn í dag á vísu, sem Halldór Blöndal orti á dögunum, þegar hann leit út um gluggann á vinnustað sínum í Olís-húsinu við Glerá og sá að áin var fagurrauð eins og Campari

Hver er þessi eina á
sem aldrei frýs?
Gul og rauð og græn og blá
og gjörð af Sís.

1979:

Norðangarri (Íslendingur, 21. ágúst 1979 (31. tbl.), bls. 3) setur vísuna fram á annan hátt ári seinna:

Hver á þessa ein á,
sem aldrei frýs,
gul og rauð og græn og blá,
og gjörð af sís.

Nokkru seinna bendir Halldór Blöndal á í Vísnaleik Morgunblaðsins, sunnudaginn 16. september 1979 (bls. 7) að hann hafi nýverið séð rangt farið með umrædda vísu og skrifar eftirfarandi (án þess að geta hver sé höfundur):

Eftirfarandi vísu hef ég nýverið séð rangt með farna í blaði, en hún var ort af því tilefni, að litur Glerár á Akureyri vildi mjög draga dám af því, við hvers konar litablöndun væri verið að sýsla í Skinnaverksmiðjunni Iðunni í það og það sinnið:

Hver er þessi eina á,
sem aldrei frýs:
gul og rauð og græn og blá
og gjörð af SÍS?

1987:

Í viðtali í Tímanum (27. september 1987 (213. tbl.), bls. 13) er eftirfarandi svar haft eftir Halldóri aðspurðum um vísukornið:

,,Já, aðdragandinn að þessari vísu er sá að ég vann hjá Hermanni Árnasyni endurskoðenda sem hafði skrifstofu á bökkum Glerár. Ég tók eftir að áin skipti litum eftir því hvaða litarefni var verið að nota í verksmiðjum SÍS í það og það skiptið, og þá varð þessi vísa til:

Hver er þessi eina á,
sem aldrei frýs,
gul og rauð og græn og blá,
og gjörð af SÍS.“

1996:

Faðir minn, Þorsteinn Pétursson (Steini Pje) skrifar svo um þetta í Morgunblaðinu, 25.04.1996 (94.tbl.) Bls. 58.

Athugasemdir við Vísnatorg

Frá Þorsteini Péturssyni

Í GREIN blaðsins föstudaginn 19. Apríl er vitnað í Ólaf. G. Einarsson, forseta Alþingis, sem gestkomanda á vísnatorgi. Þar vitnar hann í vísu um Glerá, en vísuna eignar hann Halldór Blöndal ráðherra. Vísan er svona:

Hver er þessi eina á
sem aldrei frýs,
gul og rauð og græn og blá
og gjörð af SÍS.

Undirritaðan langar til að gera eftirfarandi athugasemd.

Ólafur telur vísu þessa vera frá 1970 og ort af Halldóri Blöndal. Einnig hefur vísa þessi komið fram áður en þá einnig kennd Halldóri Blöndal, mun það hafa verið í bók Árna Johnsen alþingismanns. Í raun er vísa þessi töluvert eldri, eða minnsta kosti samskonar vísa þótt þar væri stuðst við betri sannindi en þessi vísa er kennd við. Í greininni er talið að vísan sé um Glerá en það er alls ekki rétt. Vísan varð til um á sem, eins og kemur fram í henni, SÍS gerði, (Glerá varð ekki til af hálfu SÍS). Á þessi var gjarnan nefnd „Vélarlækurinn“. Rann áin (vélarlækurinn) í stokk frá stíflu við þáverandi Glerárbrú hjá Sólvangi. Frá inntaki og að verksmiðjuhúsi þar sem lækurinn rann inn var stokkurinn yfirbyggður og úr tré. Enn sjást menjar um þetta mannvirki. Stokkurinn er reyndar ekki alltaf nægilega traustur. Þannig gerðist það eitt sinn að nautgripur sem Jón Ingimarsson átti, féll í lækinn og stíflaði hann. Lækur þessi rann síðan í gegnum ullarþvottastöðina og var þar notaður til þvotta og litunar. Lækurinn kom síðan út úr stöðinni að austan og var þá alla vega á litinn, eins og fram kemur í vísunni. En þar sem hann hafði í notkun í þvotta- og litunarstöðinni náð hærra hitastigi þá fraus hann ekki næst stöðinni en lækurinn rann svo aftur í Glerá sem fékk þá sinn skerf af litnum. Eins og við sem búum nærri Glerá vitum, þá frýs hún mjög fljótt frá upptökum til ósa.

Allt frá því að ég heyrði vísuna kennda við Halldór Blöndal hefi ég rætt við marga af fyrrverandi starfsmönnum SÍS sem unnu þar með föður mínum, Pétri B. Jónssyni skósmið, sem vann þar við skósmíði frá 1938 til 1963, kannast þeir við að faðir minn, Pétur, hafi ort vísuna. Við verklok var faðir minn sæmdur orðu fyrir 25 ára starf. Kastaði hann þá fram vísu þessari:

Suma eltir ólánið
öðrum vegnar betur,
sjáið hvernig sambandið
sæmir gamla Pétur.

Faðir minn var ekki skáld en kastaði oft fram stöku. Auðvitað getur það hent að hagyrðingur komi með svipaðar eða næsta samskonar vísur. Ég tel þó að með rökum þeim er ég hefi leitt að tilurð vísukorns þessa, að Halldóri sé ranglega eignuð vísan. Í fórum mínum á ég allmikið af gömlum vísum sem til urðu í verksmiðjum SÍS meðan þær voru og hétu. Margar af vísum þessum eru skrifaðar á skókassa og annað er til féll. Margir ágætir hagyrðingar unnu í verksmiðjunum og margar vísur urðu til. Ég mun ekki fara út í frekari ritdeilur um vísnagerð, læt því staðar numið og þakka Morgunblaðinu birtinguna. Vonast ég til að Halldór Blöndal leiðrétti þann misskilning að hann sé höfundur vísunnar.

ÞORSTEINN PÉTURSSON
Stapasíðu 11i, Akureyri

url: http://pb.annall.is/2013-05-03/glera-moraud-eda-raud-samt-ekki-gerd-af-sis/


© pb.annáll.is · Færslur · Ummæli