pb.annáll.is

AnnállAkureyrarAkademíanDeutschEvrópa Unga FólksinsJólKirkjanPersónur og leikendurÚr Glerárkirkju

« Glerá, mórauð eða rauð, samt ekki gerð af SÍS · Heim · 3 Kinder = Armut? »

Úr gestabókum Ástjarnar

Pétur Björgvin @ 13.05 24/5/13

Á kveðjustundum hugsar maður gjarnan til baka og rýnir í ýmiss gögn. Nú hefur bænakonan Margrét Magnúsdóttir kvatt þennan heim og mér verður hugsað til þeirra fjölmörgu stunda sem ég fékk notið samvista með henni, meðal annars á Ástjörn. Þar sem ég lét hugann reika til baka varð mér litið upp í hillu á möppu sem hefur að geyma samantekt sem ég gerði fyrir rúmum tíu árum á því sem ritað hafði verið í gestabækur Ástjarnar fram að aldamótunum síðustu. Ákvað að birta nokkra gullmola hér.

Þann 28. maí 1968 hefur eftirfarandi verið skrifað í gestabók Ástjarnar:

Komum hér 28. maí. Allt virtist í góðu lagi nema hvað brotnar höfðu verið tvær rúður í bragga og Jörundur sem geymdur var í bragganum hafði fengið í sig járnkarl og var með brotið þverband og borð.

Bogi Pétursson, Grímur Sigurðsson

Árið 1970 skrifar Bogi í gestabókina, dags. 28. maí:

Fyrsta heimsókn okkar til Ástjarnar var 27. til 28. maí. Í þessari ferð var gamla eldavélin fjarlægð, gert við vatnsleiðslu og undirbúið að taka glugga úr eldhúsi svo hægt væri að koma inn stórri rafeldavél í næstu ferð. Rósa ráðskona kom með okkur frá Akureyri og bauð okkur að gista hjá sér, sem við þáðum og nutum við góðrar hvíldar ásamt öllum þeim góðu veitingum sem við nutum. Þessir voru í ferðinni

Stefán Pétursson, Arthur Bogason, Margrét Magnúsdóttir, Bogi Pétursson

Í gestabók Ástjarnar frá 29. maí 1982 segir m.a.:

Komum hér að nóttu 29. maí og erum búin að vera lengi frá Akureyri vegna þess að afturhjól losnaði á Bronkonum og er felgan ónýt. Á Húsavík hittum við Arthur og Sveinbjörn en þeir ætla að róa á Eldingu sem þeir hafa nýbyggt. Hér var mjög kalt, norðan hraglandi, gengum til hvílu um 2. Um 9.30 komu Ingi og Mæja ásamt börnum og Ola Jakup. Við fórum strax að undirbúa vatnskerfið og kom í ljós að tvö rör voru sprungin og var nú ekið í Kvistás og fengin tæki til viðgerðar, en Mansi sagðist að vísu ekki lána tækin en að lána okkur væri undantekning. Já ekki mun þetta vera fyrsti greiði Mansa í okkar garð og finnum við oft hversu gott er að eiga slíka að. Kl. um 5 var hægt að fara að kynda húsið og var ekki laust við hroll í mönnum því enn hefur kólnað. Að kvöldi laugardags var byrjað að undirbúa að teppaleggja ganginn í Maríubúð. Fór að kvöldi laugardags og sótti Arthur og Svenna til Húsavíkur og hafa þeir m.a. bankað dýnur úr rúmum og munum við á morgun setja í rúmin það sem eftir er af dýnunum. Nú er klukkan farin að halla í tvö og við förum að halla okkur. Ráðgerum heimferð á morgun, annan hvítasunnudag. Þessi voru hér utan gesta sem komu í dag þeim Helga Stefáns og fjölskyldu hans:

Bogi Pétursson, Óli Jakup Hansen, Ingibjörn Steingrímsson, María Stefánsdóttir, Vallý, Helgi Stefán, Kristinn, Ásta Júlía, Fjóla Hilmarsdóttir, Jógvan Purkhus, Poli Purkhus, Hanna Hilmarsdóttir

Í gestabók Ástjarnar frá 26. maí 1983 standa meðal annars eftirfarandi orð:

Komum hér kl. 20:00 að kveldi 26. maí ásamt Inga, Mæju og börnum og vorum við 6 klukkustundir á leiðinni vegna bilana í Bronco. Þetta er fyrsta ferðin hingað síðan 4. september að hausti, aðkoman kom okkur á óvart því að hér var allt á kafi í snjó og þurftum við að moka rúman meter ofan á olíutank og á annan meter ofan á vatnsinntak. Við Ingi hófumst handa með að reyna að fá vatn og unnum til klukkan eitt um nóttina án árangurs. Fórum þá að hvíla okkur. Nú er kominn laugardagur og strax byrjum við að reyna við vatnið og höfum reynt allt sem hugsast getur til að fá vatn en án árangurs. Kl. um 17 síðdegis komu Steini og Pétur og Jóhann synir hans. Og voru komnir í því augnamiði að setja upp hillur fyrir skó í herbergi því sem er kallað frá fyrri tíð Rósu ráðskonuherbergi. Nú er klukkan að verða eitt að nóttu og ekkert vatn komið. Það vakti athygli okkar að rúða hafði verið brotin á eldhúsglugga og farið þar inn, sömuleiðis voru dyr bakdyramegin opnar en ekkert verið skemmt og engu hreyft við að öðru leyti. Þorsteinn bróðir minn hefur í dag, laugardag, sett upp hillur í gamla ráðskonuherbergið hennar Rósu og nú verða allir skór geymdir þar. Ráðgerum heimferð í dag síðdegis, en nú er kominn sunnudagur 28. maí. Felum Guði allt sem hér er og það sem hér fer fram og treystum á hans hjálp eins og hingað til.

Bogi Pétursson, Margrét Magnúsdóttir, Ingibjörn Steingrímsson, María Stefánsdóttir, Vallý, Helgi Stefán, Ásta, Kristinn, Þorsteinn Pétursson, Pétur Björgvin, Jóhann Hjaltdal

url: http://pb.annall.is/2013-05-24/ur-gestabokum-astjarnar/


© pb.annáll.is · Færslur · Ummæli