pb.annáll.is

AnnállAkureyrarAkademíanDeutschEvrópa Unga FólksinsJólKirkjanPersónur og leikendurÚr Glerárkirkju

« Prestar óskast · Heim · Fyrsta árið hjá ejr »

Haustkvöld 2067

Pétur Björgvin @ 16.46 10/4/14

Það er komið fram í október. Rigningin lemur rúðurnar á Birkimel, litlum sveitabæ í Skíðadal. Eldurinn skíðlogar í arninum. Ekki skortir brennivið hjá skógarhöggsfjölskyldunni. Börn Péturs skógarhöggmanns leika sér með þurrkaða húð af birkitrjám þegar Samúel, afi barnanna gengur inn. Þótt Samúel sé kominn á áttræðisaldur er hann léttur á sér. Hann sest á gólfið hjá börnunum fyrir framan arininn. Jóhann, sá elsti í systkinahópnum snýr sér að afa sínum og segir: ,,Viltu segja okkur skólasöguna aftur afi, gerðu það.”

Það tístir í Samúel afa: ,,Það er ótrúlegt hvað þið hafið gaman af því að hlusta á þessa sögu. Já það er alveg sjálfsagt. Komið nú hérna heillirnar og kúrið hjá mér við arininn. Og hlustið nú vel:”

Mér finnst eins og það hafi verið í gær. Á hverjum morgni vöktu foreldrar okkur um sjöleytið á morgnanna því að við vorum skyldug til þess að mæta klukkan átta á stað sem var kallaður skóli. Skólinn okkar hét Hlíðaskóli. Þetta var stórt hús með mörgum inngöngum. Herbergin í húsinu voru kölluð stofur og fullorðna fólkið sem vann í skólunum var kallað kennarar.

Ég veit að þið eigið erfitt með að ímynda ykkur hvernig svona skólalíf var. Hluti af skólalífinu átti sér stað heima. Sá hluti var kallaður heimanám. Mig minnir að mamma hafi verið duglegri að hvetja okkur til þess að sinna heimanáminu. Við áttum til dæmis að skrifa sögur í bók, leggja saman tölur á blað eða læra kvæði utan að. Áður en við fórum að sofa á kvöldin settum við allt sem við þurftum fyrir skólann í bakpokana okkar sem voru kallaðir skólatöskur.

Tíminn sem við dvöldum í skólanum var mjög skipulagður. Honum var skipt í 40 mínútna einingar. Til þess að gera námið fjölbreytt fengum við svo að nota þessar einingar í mismunandi hluti. Fyrstu fjörtíu mínúturnar fóru kannski í það að læra um samfélagsfræði, svo fórum við í íþróttir, lærðum önnur tungumál, til dæmis ensku. Já, heillirnar. Og þegar ég hugsa til baka þá minnir mig eins og að við höfum verið með þetta skipulag á blaði. Gott ef það kallaðist ekki stundaskrá.

Eins og ég sagði ykkur þá vann fullorðið fólk í skólunum. Þeir sem hjálpuðu okkur að læra kölluðust kennarar. Þetta ágæta fólk hafði lagt heilmikið á sig til þess að verða kennarar, ætli það hafi ekki verið fjögur ár minnir mig, kennaranámið. Já, já, tveir bræður Péturs langafa ykkar voru kennarar. Eftir kennaraverkfallið mikla gerðist annar húsasmiður og hinn varð fyrsti alvöru skógarbóndinn á norðausturhorninu. Pabbi ykkar lærði einmitt mikið af honum áður en hann fór að byggja upp skóginn hér.

Þegar hér var komið við sögu greip Snjólaug, yngsta systirin inní: ,,Afi, viltu segja okkur frá frímínútunum, jóla- og páskafríunum.”

Hehe, Snjólaug mín, þú ert alltaf söm við þig. En vitiði hvað, ég held að við förum að sofa núna og á morgun skal ég fara með ykkur í leik sem við fórum stundum í í frímínútum. Hann kallaðist brennó eða brennibolti. Svona í háttinn með ykkur heillirnar.

[Endurbirt færsla. Fyrst birt í kennaraverkfalli hér á annál haustið 2004.]

url: http://pb.annall.is/2014-04-10/haustkvold-2067-2/


© pb.annáll.is · Færslur · Ummæli