pb.annáll.is

AnnállAkureyrarAkademíanDeutschEvrópa Unga FólksinsJólKirkjanPersónur og leikendurÚr Glerárkirkju

« Að halda andlitinu · Heim · Kynjahalli í kirkjunni »

Menningarstefna Akureyrarbæjar 2013 til 2018

Pétur Björgvin @ 14.53 23/4/14

Mér þóttu það ánægjulegar fréttir að bæjarstjórn Akureyrar hafi á fundi sínum þann fyrsta apríl síðastliðinn samþykkt nýja menningarstefnu fyrir bæjarfélagið. [Aðgengileg á vef Akureyrar] Þar með er tekið mikilvægt skref í átt að frekari uppbyggingu menningar í víðum skilningi þess hugtaks á Akureyri og sú vinna sem fram hefur farið síðustu ár, að hluta með þátttöku almennings, loksins að skila sér í pólitískum ákvörðunum. Nú er bara að vona að stefnan reynist ekki aprílgabb og að starfsfólk Akureyrarstofu hafi andrými til að kynna stefnuna fyrir íbúum bæjarins. Sjálfur var ég svo heppinn að Sigurður Guðmundsson, bæjarfulltrúi, sendi mér eintak af drögunum sem voru lögð fyrir viðkomandi bæjarstjórnarfund. En nú er stefnan aðgengileg á vef bæjarins. Um þessi drög segir á vef Akureyrarbæjar:

Endurskoðun menningarstefnu Akureyrarbæjar 2013-2018

2011020012

1. liður í fundargerð stjórnar Akureyrarstofu dags. 23. janúar 2014:
Drög að stefnunni tekin fyrir að nýju.
Stjórn Akureyrarstofu samþykkir drögin fyrir sitt leyti og felur framkvæmdastjóra að ganga frá þeim í samræmi við þær breytingatillögur sem fram komu á fundinum.

Bæjarstjórn samþykkir endurskoðaða menningarstefnu Akureyrarbæjar 2013-2018 með 11 samhljóða atkvæðum.

Eftir að hafa lesið þetta ágæta plagg fann ég hjá mér þörf til að blogga örlítið um þau orð sem þar hafa verið sett á blað. Það gleður mig að stefnan hefur nú verið birt á vef Akureyrarbæjar í endanlegri útgáfu sinni, íbúum til upplýsingar og verðandi bæjarstjórnarfulltrúum til fróðleiks.

Ég er í heild ánægður með þá stefnu sem hér birtist á prenti og þyki það virðingarvert og lofsvert að fjöldi fólks hafi lagt hendur á plóg í þessari vinnu. Í mínum huga er svona stefna lifandi plagg sem svífur yfir vötnunum af því að fólk heldur því á lofti. Með orðum mínum vil ég halda þessari stefnu á lofti. Þeir punktar sem ég set fram hér í þessu samhengi eru orð til umhugsunar. Kannski leiða þau til þankagangs um stefnuna, kannski er þetta „bara bölvuð vitleysa“ hjá mér. Hvort heldur er, ég nýt þess að mega nýta mér rétt minn til opinbera skrifa.

Mér þykir til fyrirmyndar að höfundum stefnunnar er ljóst að menningarbærinn Akureyri (sbr. eftirfarandi orðalag á bls. 4)

… er reistur á fleiri stoðum en þeim sem sveitarfélagið leggur til. Það eru því margir sem leggja sitt að mörkum til vaxtar og viðgangs menningarstarfs í bænum.

Um leið þykir mér miður að þeir vaxtabroddar, jafnvel menningarstoðir, eru ekki tilgreindir í stefnunni á annan hátt en að tilvist þeirra er viðurkennd og þar með sú staðreynd að þar með geti orðið til aðrar leiðir til menningarsköpunar á Akureyri og að hvatt sé til samstarfs. Hér hefði ég viljað sjá sérstakan kafla sem fjallaði um stuðning við frjáls félagasamtök, nýsköpun og vaxtarsprota á vettvangi menningar. Vissulega er slegin mjög jákvæður tónn í garð allra sem að menningu koma í stefnunni (skárra væri það nú), en ég teldi það menningarstarfi á Akureyri til framdráttar ef að unnið væri sérstaklega að því að styrkja frumkvæði grasrótarinnar (ekki með peningum heldur með ráðgjöf og hvatningu). Skref í þessa átt er vissulega tekið í þeim hluta inngangsorða stefnunnar sem ber yfirskriftina „Samvinna og ráðdeild“ en orðalag þess kafla er slíkt að það miðlar mér frekar þeirri tilfinningu að fyrst og fremst sé verið að hugsa um samstarf þar sem verið er að nýta skattfé til menningarstarfs. Virðingarverð þykja mér eftirfarandi orð í inngangi stefnunnar:

Ætíð skal vinna út frá þremur stefjum sem eru samvinna, metnaður og fjölbreytni. Til menningarmála samkvæmt þessari stefnu heyra þær stofnanir sem sinna menningarstarfi og eru ýmist reknar beint af Akureyrarbæ eða með stuðningi hans. Til málaflokksins heyrir einnig samstarf við félög og einstaklinga um viðburði og sköpun af fjölbreytilegum toga.

Fjölmenningarsamfélagið og samþætting kynjasjónarmiða eru einnig nefnd til leiks í inngangi stefnunnar. Það þykir mér mjög gott mál og spennandi að vita til þess að Akureyrarbær ætli sér að efla eigið starf í þessu samhengi. Eftir að hafa lesið stefnuna verð ég þó að viðurkenna að hér á eftir að leggja hönd á plóg: Það er ekki nóg að nota þessi tískuorð, heldur þarf að skilgreina hvaða þýðingu þau hafa í viðkomandi samhengi. Um samþættingu kynjasjónarmiða fann ég fyrir utan eina setningu í inngangi:

dregin verði fram hluti kvenna til jafns við karla

hvergi stakt orð um samþættingu kynjasjónarmiða. Það þykir mér miður. Hvað fjölmenningarsamfélagið varðar kveikja eftirfarandi setningar þó vonarneista í brjósti mér og hef ég ákveðið að þær megi skilja sem hugsun í þá átt að bjóða fólk með fjölmenningarlegan bakgrunn velkomið til starfa á vettvangi menningar:

Leitast verði við að skapa þeim listgreinum innan sviðslista sem hafa ekki langa forsögu í bænum umhverfi til að kynna sig betur og ná festu. (Kafli 1/Sviðslistir)

Leita ber leiða til að virkja og efla og virkja [sic] þann kraft sem býr í unga fólkinu bæði þeim sem eru að stíga sín fyrstu skref sem og þeim sem lengra eru komnir. (Kafli 2/Tónlist)

Sem oft áður eru spennandi tímar framundan á Akureyri. Takk þið öll sem hafið lagt hönd á plóg við gerð þessarar stefnu. Flott plagg sem við ættum öll (líka svona fólk eins og ég sem er ekki búsett á Akureyri í augnablikinu) að geta vel við unað. Nú er um að gera að taka höndum saman og byggja frekar upp menningarstarf á Akureyri.

url: http://pb.annall.is/2014-04-23/menningarstefna-akureyrarbaejar-2013-til-2018/


© pb.annáll.is · Færslur · Ummæli