pb.annáll.is

AnnállAkureyrarAkademíanDeutschEvrópa Unga FólksinsJólKirkjanPersónur og leikendurÚr Glerárkirkju
  • Annálar

  • Tenglar

  • Eldri færslur

  • Leit

Menningarstefna Akureyrarbæjar 2013 til 2018

14.53 23/4/14 - 0 ath.

Mér þóttu það ánægjulegar fréttir að bæjarstjórn Akureyrar hafi á fundi sínum þann fyrsta apríl síðastliðinn samþykkt nýja menningarstefnu fyrir bæjarfélagið. [Aðgengileg á vef Akureyrar] Þar með er tekið mikilvægt skref í átt að frekari uppbyggingu menningar í víðum skilningi þess hugtaks á Akureyri og sú vinna sem fram hefur farið síðustu ár, að hluta með þátttöku almennings, loksins að skila sér í pólitískum ákvörðunum. Nú er bara að vona að stefnan reynist ekki aprílgabb og að starfsfólk Akureyrarstofu hafi andrými til að kynna stefnuna fyrir íbúum bæjarins. Áfram…

AkureyrarAkademían – þar sem listir, menning og fræði mætast

09.06 20/8/12 - 0 ath.

Í hugum margra, bæði heimamanna og annarra, er Akureyri skólabær enda setja menntastofnanirnar sterkan svip á menningarlíf bæjarins. Tilkoma AkureyrarAkademíunnar árið 2006 jók enn á þessa ímynd. Með henni bættist enn einn kosturinn við í þá menningar- og menntaflóru sem bærinn býður. AkureyrarAkademían er daglegt heiti Félags sjálfstætt starfandi fræðimanna á Norðurlandi. Tæplega 60 manns hafa haft aðstöðu til lengri eða skemmri tíma í húsnæði AkureyrarAkademíunnar, gamla Húsmæðraskólanum við Þórunnarstræti 99. Félagið hefur staðið fyrir fjölda viðburða og þinga auk um sjötíu fyrirlestra, en Fimmtudagsfyrirlestrar AkureyrarAkademíunnar eru nú vel þekktir sem vettvangur þverfaglegs samtals. Þar hefur rými skapast fyrir fræðahugsun sem nær út fyrir ramma einstakra skóla eða stofnanna. Það er mjög í takti við markmið félagsins um að vera aflvaki fræðilegra rannsókna og miðlunar þeirra.

Lesa aðsenda grein á vef Akureyri-vikublaðs (Greinin birtist í 31.tbl. 2.árg. 16. ágúst 2012, bls. 13.)

Matur, fæði, næring?

22.22 19/3/12 - 0 ath.

regina 002

Fimmtudaginn 22. mars kl. 17:00 heldur Regina B. Þorsteinsson, hjúkrunarfræðingur (M.Sc.) og meistaranemi í næringarfræði við Roehampton háskólann í Bretlandi, erindi sem nefnist ,,Matur, fæði, næring?”. Erindið er hluti af fimmtudagsfyrirlestraröð AkureyrarAkademíunnar og það síðasta á þessum vetri. Það eru allir velkomnir á efri hæð gamla Húsmæðraskólans til að hlýða á erindið og taka þátt í umræðum. Aðgangur ókeypis. Heitt á könnunni.

Hvers konar matur er mikilvægur til að halda líkama og sál lifandi?
Skiptir máli hvers konar fæði við fáum?
Er öll næring góð?

Í erindi sínu mun Regína fjalla í stuttu máli um meistararannsókn sína sem tengist vannæringu á sjúkrahúsum. Fimmti hver sjúklingur sem leggst inn á sjúkrahús er í áhættu fyrir vannæringu eða er þegar vannærður. Rætt verður um mögulegar orsakir og þekktar afleiðingar fyrir sjúklinga og heilbrigðiskerfið.

Guðjón Samúelsson og ásýnd Akureyrar

09.54 3/3/12 - 0 ath.

Guðjón Samúelsson var einn fyrsti íslenski arkitektinn og er höfundur opinberra bygginga sem setja sterkt svipmót á Akureyri. Í mínum huga er gamli Húsmæðraskólinn þar mjög ofarlega á blaði, þó vissulega sé Akureyrarkirkja það verk hans sem í dag er ein af táknmyndum bæjarins. Ekkert hús þekki ég þar sem er eins bjart og vinalegt innandyra eins og í gamla Húsmæðraskólanum, né hef ég nokkru sinni unnið í húsi þar sem ríkir jafn góður andi. Það voru 600 konur á Akureyri sem komu því til leiðar að húsið var byggt, það voru konur sem byggðu upp starfið í skólanum, það voru konur sem af alúð og natni gáfu húsinu það líf og þá arfleifð sem húsið býr að í dag.

Guðjón sat í fyrstu skipulagsnefnd ríkisins sem sett var á fót árið 1921 og var einn af aðalhöfundum fyrsta Aðalskipulags Akureyrarkaupstaðar sem samþykkt var árið 1927. Í því skipulagi var lagður grunnur af bæjarmynd sem í enn má sjá leifar af í miðbænum og hluta Oddeyrar. Hugmyndir Guðjóns um skipulag bæja eru mjög athyglisverðar í ljósi sögunnar. Í þeim er í fyrsta sinn gert ráð fyrir aðgreiningu atvinnusvæða og íbúðarsvæða en slíkar hugmyndir áttu mjög upp á pallborðið í skipulagi alla 20. öldina. Nýverið sagði Jón Hjaltason eftirfarandi um Guðjón í Akureyri-vikublað:

Guðjón Samúelsson kom með þessa brjálæðislegu hugmynd 1935, að leggja 10 metra breiðar tröppur upp höfðann að kirkjunni, sem þá var enn ekki risin. … .þrátt fyrir kreppu og eymd í samfélaginu var rándýra framkvæmdin tekin fram yfir þá hræ-ódýru. Sem enginn vanþakkar í dag.

Laugardaginn 10. mars næstkomandi stendur AkureyrarAkademían fyrir vorþingi sem nefnist ,,Guðjón Samúelsson og ásýnd Akureyrar

Hagnýtir skólar verða kjörorð framtíðarinnar í uppeldismálum

21.32 28/1/12 - 0 ath.

Húsmóðurinni er nauðsynlegra að kunna að matreiða góða og holla máltíð, sauma flík, hirða um þvott sinn, ræsta hús sitt og hjúkra barni sínu en að geta stautað sig fram úr erlendum reyfara og tízkublaði eða leyst þraut hinnar hærri stærðfræði.

Þannig hefst viðtal við frk. Jóninnu Sigurðardóttur sem birtist í Degi á Akureyri, fimmtudaginn 26. febrúar 1942, en Jóninna var aðalfrumkvöðullinn á bak við stofnun Húsmæðraskólans á Akureyri, sem hóf starfsemi sína 1945 í því húsi sem hýsir AkureyrarAkademíuna í dag. Ekki þarf að taka fram að viðhorfin til menntunar og hlutverka kynjanna hjá þeim sem þar sitja í dag eru ekki þau sömu. Viðtalið er birt hér á eftir í heild sinni. Leturbreytingar eru mínar. Áfram…

Húsmæðraskóli á Akureyri

18.04 28/1/12 - 0 ath.

Úr Degi (18.10.1945):

Eg rumskaði snemma í morgun við það, að sunnangolan feykti upp glugganum mínum. Eg skreiddist fram úr til þess að krækja glugganum, en er ég leit út glaðvaknaði ég öll, því að við mér blöstu ljós — mörg ljós og mikil birta frá hinum nýja húsmæðraskóla við Þórunnarstræti, sem nú er fullger og um þær mundir að hefja starf. Þetta nýja, glæsilega hús fannst mér breiða út faðminn
þarna í morgunblænum og bjóða velkomnar ungar dætur bæjarins: „Hér er ég þá loksins kominn til ykkar. Gjörið þið svo vel.” :
Sannarlega er það mikill menningarauki fyrir þennan bæ, að hafa eignazt húsmæðraskóla, og eiga konur þær, er að málinu hafa unnið með svo glæsilegum árangri, miklar þakkir og hrós skilið. Ekki þykir mér ólíklegt að 13. okt. 1945 eigi eftir að verða merkisdagur í skólasögu bæjarins. Þá er í fyrsta sinn settur húsmæðraskóli á Akureyri: — Því miður var þessi skólasetning ekki með jafn miklum hátíðablæ og glæsileik, eins og hún í rauninni hefði átt að vera. Eg held að hún hafi gjörsamlega farið fram hjá miklum hluta bæjarbúa. Það hefir oft verið minna tilefni til að draga fána að hún og þeyta lúðra en hér um ræðir, og oft hafa kórfélög bæjarins og kennimenn látið til sín heyra við ómerkari athafnir, en þeim sem hér ráða málum hefir sennilega þótt hlýða að þetta færi allt fram með ró og spekt, og að yfirlætisleysi myndi farsælla upphaf. Þetta kann rétt að vera, þó að ýmsir hefðu óskað það öðruvísi — það verður ekki gert svo öllum líki — og um smekkinn verður heldur ekki deilt. Við hinn nýja húsmæðraskóla eru bundnar glæsilegar vonir. Hann má ekki verða eftirbátur annarra húsmæðraskóla, heldur þvert á móti þarf hann að verða framarlega í þeim flokki. En til þess að svo geti orðið, þurfa allir bæjarbúa að sýna honum virðing og veit aðstoð eftir föngum. — Það er ósk mín og von að hinn nýi húsmæðraskóli megi verða sannur skóli, heimili menningar og mennta.

„Puella”.

Sú var tíðin, að Húsmæðraskóli Akureyrar var fullsetinn

15.09 26/1/12 - 0 ath.

Fyrir nokkrum kvöldum var ég stödd í hinu vistlega skólahúsi er byggt var fyrir ekki mörgum árum til húsmæðraskólahalds hér á Akureyri. Þar voru þá samankomnar svo margar konur sem húsrúm leyfði og hlýtt kennslu í matargerð. Allar fóru þaðan þakklátar og ánægðar með árangur þeirrar fræðslu er þær höfðu hingað sótt. Það var bjart og létt yfir konunum, þær nutu þessarar fræðslu og hvíldarstunda. Þarna sá ég í raun rætast eina þá draumsýn og von, er við allar áttum fyrr á árum, konurnar, er stofnuðum og störfuðum í Húsmæðraskólafélagi Akureyrar.

Þannig hefst ,,bréf til blaðsins” sem húsmóðir á Akureyri hafði sent og fengið birt á bls. 5 í Degi (23.03.1955). Pistillinn þykir mér merkilegur og þess verður að hann sé lesinn. Í þeirri von að fleiri fái áhuga á málefnum gamla Húsmæðraskólans á Akureyri, birti ég bréf hennar hér í heild sinni. Hún heldur áfram og skrifar:

Áfram…

·

© pb.annáll.is · Færslur · Ummæli