pb.annáll.is

AnnállAkureyrarAkademíanDeutschEvrópa Unga FólksinsJólKirkjanPersónur og leikendurÚr Glerárkirkju
  • Annálar

  • Tenglar

  • Eldri færslur

  • Leit

Þegar jólin týndust

15.44 9/12/11 - 0 ath.

Svo segja fornar þjóðsagnir, að einu sinni vildi svo til að biskupinn á Hólum, gleymdi hvenær jólin átti að halda. Var þá eigi annars kostur en að senda mann suður í Skálholt til að spyrja biskupinn þar, hvenær jólin ættu að vera.

Til þessarar sendiferðar var valinn maður sá er Ólafur hjet, kallaður muður. Lagði hann af stað með nesti og nýja skó, og skyldi vera sem fljótastur í förum.

Segir ekki af ferðum hans, fyr en hann er kominn á Sprengisand miðjan. Bar þá svo til að bróklindi hans gekk sundur, og er hann gerir að honum, sjer hann hvar kemur tröllskessa mikil ofan úr Hofsjökli og stígur hún stórum og nálgast Ólaf fljótt, og er hún á skamt til hans, kallar hún og segir:

Ólafur muður!
ætlarðu suður;
Þú verður nú að girða þig betur,
ef þú ætlar að róa á Stafnesi í vetur.

Ólafur lætur sér ekki bylt við verða og segir hann að nú ætli hann ekki suður til sjóróðra, heldur hafi svo leiðinlega viljað til að biskupinn á Hólum hafi steingleymt hvenær ætti að halda jólin, hefði hann því sent sig suður í Skálholt til þess að spyrja biskupinn þar um þetta, ef ske kynni að hann myndi það.

Tröllskessan rekur upp stór augu er hún heyrir þetta, og er sem hún verði hlessa. Loks segir hún: Ef hann Kristur litli Máríu son hefði gert annað eins fyrir okkur tröllin eins og þið mennirnir segið að hann hafi unnið fyrir ykkur, þá hefðum við ekki gleymt fæðingardeginum hans. En það er þjer að segja, Ólafur muður, að þarflaust er þjer að fara í Skálholt að þessu sinni, og skaltu nú þegar aftur snúa, enda mun ekki betur gera en á endum standi um heimkomu þína til Hóla og jólahaldið. Tók hún þá til skinntuðru er hún hafði við belti sitt, dró hún upp úr tuðrunni kver eitt lítið, fékk Ólafi og bað hann færa Hólabiskupi. Sagði hún að trauðla mundi biskup ruglast í jólahaldi eftir að hafa lesið og lært kver þetta.

Ólafur tekur við kverinu. Skilja þau nú tröllkonan og hann. Snýr hún upp til jökulsins, en Ólafur fer að ráðum hennar og snýr á heimleið. Fer hann nú sem hraðast, uns hann kemur heim til Hóla.

Gengur Ólafur þegar fyrir biskup segir honum hið ljósasta af ferð sinni, og ummæli tröllskessunnar, fær honum síðan kverið. Tekur biskup við því, horfir í það um stund, sjer Ólafur að biskup bregður litum og verður bilt; segir nú biskup að ekki sje seinna vænna að senda út um biskupsdæmið til þess að láta presta og prófasta vita um jólahaldið, því nú sjái hann að ekki sjeu nema þrír dagar til Þorláksmessu.

Kver það, er tröllkonan sendi biskupi; var íslenskt tímatal í ljóðum og hefur það því verið kallað “Tröllkonurím”; nú er það löngu týnt, en þó eru enn til nokkrar vísur úr því, þar á meðal þessi:

Þá þorra tunglið tínætt er, -
tel jeg það lítinn háska -
næsta sunnudag nefna ber
níu vikur til páska.

Síðan hafa Íslendingar fingrarímið; en nú er það einnig að týnast, og sú list að hverfa.

En jólin fundust aftur.

Öræfabarnið íslenska mundi betur jólin, heldur en biskupinn á Hólum.

Síðan hafa jólin aldrei týnst á Íslandi.

(Úr Lesbók Morgunblaðsins, bls. 411-412, 24. desember 1929)

·

© pb.annáll.is · Færslur · Ummæli