pb.annáll.is

AnnállAkureyrarAkademíanDeutschEvrópa Unga FólksinsJólKirkjanPersónur og leikendurÚr Glerárkirkju
  • Annálar

  • Tenglar

  • Eldri færslur

  • Leit

Tæpitungulaust

05.56 28/5/14

Margt virðist benda til þess að íslamfælni fari vaxandi á Íslandi, jafnvel framandifælni (xenophobia). Þess vegna er um svo mikilvægara að forystufólk allra stjórnmálaflokka – sama hvar þeir eru á landinu – taki afdráttarlaust afstöðu gegn málflutningi þeirra sem tala niður til trúarhópa eða á annan hátt sýni rasíska afstöðu með málflutningi sínum, þögn sinni eða verkum. Við þá vini mína og fjölskyldumeðlimi sem eru flokksbundin í Framsóknarflokknum vil ég segja: Vinsamlegast gangið úr flokknum ef forystufólk hans í ykkar heimabyggð talar ekki tæpitungulaust gegn þessu hatri sem kynnt er undir með málflutningi forystunnar í borginni og þögn forsætisráðherra.
(Fyrst birt á Facebook síðu minni 27.5.2014).

Að halda andlitinu

16.23 16/4/14 - 0 ath.

Dag einn fóru líkamshlutarnir í andlitinu að rífast. Augun hófu rifrildið. Þau kvörtuðu undan því að þurfa að sætta sig við það að vera staðsett í skugga augabrúnanna. Augun töldu að þar sem þau væru gluggar sálarinnar og það væri þeirra hlutverk að sjá það sem framundan er og gefa upp stefnuna væru þau mikilvægust og ættu því að vera efst. Áfram…

Kvöld í Svarfaðardal

13.06 14/4/14 - 0 ath.

Vissulega hef ég sagt það áður. En ég segi það aftur. Eitt fallegast kvæðið eftir Aðalstein afa er ,,Kvöld í Svarfaðardal”. Það er svona:

Hér ilmar blær, hér angar jörð,
hér ómar fuglakliður.
En fannir þekja fjallaskörð
mig fangar lækjaniður.

Um dalinn áin liðast lygn
um ljósar sumarnætur.
Hér bera fjöllin töfratign
en tárast fjólan lætur.

Ég leit ei fyrr svo fagra sveit
með frjósöm tún og engi.
Í vorsins faðmi vafin reit
hér vildi’ ég una lengi.

Og þessum dal ég get ei gleymt
fyrst gafst mér hann að líta.
Því huga minn um hann fær dreymt
með hnjúka mjallahvíta.

Nú signir dalinn sumarnótt,
nú seytlar lind í hlíðum.
Nú verður dalsins dætrum rótt
í draumaheimi víðum.

Nú þráir fugl að festa blund
og fljót til sjávar hnígur.
En lofgjörð hljóð, um helga stund,
í himingeiminn stígur.

Aðalsteinn Óskarsson (úr: Hugarflug bóndans í Birkimel, LR Prentþjónusta 1996)

Haustkvöld 2067

16.46 10/4/14 - 0 ath.

Það er komið fram í október. Rigningin lemur rúðurnar á Birkimel, litlum sveitabæ í Skíðadal. Eldurinn skíðlogar í arninum. Ekki skortir brennivið hjá skógarhöggsfjölskyldunni. Börn Péturs skógarhöggmanns leika sér með þurrkaða húð af birkitrjám þegar Samúel, afi barnanna gengur inn. Áfram…

Úr gestabókum Ástjarnar

13.05 24/5/13 - 0 ath.

Á kveðjustundum hugsar maður gjarnan til baka og rýnir í ýmiss gögn. Nú hefur bænakonan Margrét Magnúsdóttir kvatt þennan heim og mér verður hugsað til þeirra fjölmörgu stunda sem ég fékk notið samvista með henni, meðal annars á Ástjörn. Þar sem ég lét hugann reika til baka varð mér litið upp í hillu á möppu sem hefur að geyma samantekt sem ég gerði fyrir rúmum tíu árum á því sem ritað hafði verið í gestabækur Ástjarnar fram að aldamótunum síðustu. Ákvað að birta nokkra gullmola hér. Áfram…

Glerá, mórauð eða rauð, samt ekki gerð af SÍS

19.08 3/5/13 - 0 ath.

Nokkrar umræður hafa skapast í netheimum í tilefni af því að litarefni rann út í Glerá á Akureyri. Á þó nokkrum stöðum hef ég séð vitnað í vísukorn af því tilefni og þá gjarnan látið fylgja að vísan sé um Glerá og höfundur hennar fyrrverandi alþingismaður og ráðherra. Þar sem ég er þessu ekki sammála (hvorki að Glerá sé gerð af SÍS né að alþingismaðurinn sé höfundurinn) ákvað ég að minna á skrif um þetta. Meti svo hver fyrir sig. Ábendingar um frekari heimildir vel þegnar (gjarnan á netfangið pthorsteinsson[hjá]yahoo.com). Áfram…

FRUMRAUN – ELDRAUN – RAUN

16.45 28/6/12 - 0 ath.

Guð brosti.
Hún var ánægð.
Sköpunin fullkomin.
Jörðin dásamleg.

Konunni og karlinum
fól hún jörðina.
Gætið hennar vel,
hún er einstök.

Guð grét.
Hann var svekktur.
Sköpunin svívirt.
Hrokinn alsráðandi.

Karlinum og konunni
fól hann örkina.
Gætið hennar vel,
hún þarf að fljóta.

Guð brosti.
Hún var vongóð.
Regnboginn fullkominn.
Jörðin með framtíð.

Konunni og karlinum
fól hún jörðina.
Gætið hennar vel,
hún er sjálfbær.

Guð grét.
Hann var hryggur.
Manneskjan svívirt.
Græðgin alsráðandi.

Karlarnir og konurnar
gerðust lærisveinar.
Kallið skýrt:
Fylgið mér.

Guð brosti.
Hún var upprisin.
Syndin afmáð.
Sigurinn unninn.

Konunum og körlunum
fól hún kirkjuna.
Vandið ykkur nú,
hún er allt sem ég á.

Guð grætur.
Hjarta hennar kramið.
Börn fótum troðin.
Egóið eitt tilbeðið.

Karlarnir og konurnar
heyra ekki kallið lengur.
Engin örk.
Enginn kross.

Enginn sáttmáli …

———

(Ort eftir lestur um Ríó+20).

Gömul ferðasaga

14.47 3/6/12 - 0 ath.

HelenaRut

Hef þörf fyrir að endurupplifa ferð sem ég fór í til Frakklands fyrir margt löngu.  Ákvað að endurupplifa hana með því að segja frá henni hér.Ferðin hófst eiginlega laugardaginn 8. ágúst 1998.  En þann dag pökkuðum við (Pétur, Regina, Samuel og Helena) dótinu okkar í bílinn og ókum til Munsingen.  Við eyddum svo laugardeginum og hluta af sunnudeginum í það að raða í hillur og skúffur í hjólhýsið hans tengdapabba.  Um sjöleytið á sunnudagskvöldinu ókum við svo af stað.  Leiðin lá þvert yfir suðurþýsku alpana til landamæranna við Schaffhausen og þaðan framhjá Zurich í gegnum Bern til Genf. Frá Genf lá leiðin til Grenouble og þaðan svo í áttina til Cannes (sem er jú þekkt fyrir kvikmyndahátíðina).  Klukkan 11 á mánudagsmorgninum vorum við svo komin á leiðarenda:  Í nágrenni lítils þorps sem heitir Montpezat við vatn sem heitir Lac St. Crox í hinu þekkta Verdon-gljúfri settumst við að á tjaldstæði sem heitir Coteau de la Marine.  Þetta er heilmikið túristasvæði og þarna dvöldum við í eina viku. Ég fór meðal annars í eins dags göngu og hjólreiðaferð með Hartmut.  Við lögðum upp klukkan átta um morguninn og ókum fyrst í uþb eina klukkustund að þeim stað þar sem við ætluðum að enda gönguna.  Þar læstum við hjólunum okkar við staur og ókum uþb 16 km til baka.  Þar lögðum við bílnum við fjallakofa frönsku alpafélaganna sem heitir “Challet du Marlene” og lögðum af stað.  Fyrstu 45 mínúturnar liggur leiðin frá þessum fjallakofa niður að fljótinu Verdon.  Á þessum 45 mínútum lækkar maður sig uþb um 200 hæðametra.  Þá liggur leiðin upp með fljótinu (yfirleitt er fólki ráðlagt að ganga niður með fljótum en einmitt á þessum vegi eru allir sammála um að það sé um að gera að labba upp í móti til þess að þurfa ekki að labba þessa 200 hæðametra í einu yfirleitt í steikjandi sól.  Hitinn þennan dag við fjallakofann var 34 gráður á Celsíus en það var eitthvað kaldara í skugganum niður í gilinu (kannski 25 gráður). Áfram…

Fótbolti, Úkraína og mannréttindi

21.11 28/4/12 + 2 ath.

timoschenko

Ég er ánægður með Sigmar Gabriel sem fer fyrir SPD í Þýskalandi hvað það varðar að hann hefur nú hvatt alla stjórnmálamenn til þess að fara ekki á EM í fótbolta í Úkraínu. (Sjá tagesschau.de). Hann bendir réttilega á að það að sitja með ráðamönnum frá Úkraínu og horfa á fótboltaleik jafngildi opinberu samþykki á framferði stjórnvalda í Úkraínu og meðhöndlun þeirra á Julíu Timoschenko. Áfram…

Gengið í Raufarhólshelli 9. febrúar 2012

22.02 13/2/12 - 0 ath.

Fimmtudaginn 9. febrúar 2012 heimsótti ég Raufarhólshelli ásamt stórum hópi erlendra sjálfboðaliða. Erfitt var að finna opið á hellinum þar sem skafið hafði eiginlega alveg fyrir það. Þegar inn var komið þurfti að brjótast yfir nokkrar snjóbreiður þar til komið var inn fyrir þriðja og síðasta opið sem er á hellisþakinu. Þá tók við ótrúlega ísveröld sem gerði okkur mjög erfitt að fara um hellinn. En inn fórum við, rétt eins og prófessor H. Munger og félagar 14. febrúar árið 1954. Samkvæmt þeirra mælingum náði ísinn um 200 metra inn hellinn. Mér þykir ekki ólíklegt að það hafi verið svipað á fimmtudaginn var, en við höfðum engin tæki til mælinga meðferðis.

Áfram…

Kemur fólki skilnaður biskupsefnis við?

14.09 29/1/12 + 10 ath.

Á facebook síðunni minni vísaði ég í pistil Sigurðar Árna þar sem hann sem einn af þeim sem bjóða sig fram til biskups, svarar spurningu sem honum barst: Getur fráskilinn einstaklingur orðið biskup? Mér þótti svarið hreinskilið og að Sigurður Árni ætti hrós skilið. En Carlos kom með áhugavert innlegg í umræðuna: Áfram…

Biedermann

09.18 18/7/11 - 0 ath.

Í pistli dagsins á trú.is segi ég m.a.:

Samfélag sem einkennist af hugleysi, aðgerðaleysi, blindu trausti og meðvirkni er dæmt til þess að hnigna. Þjóðfélag sem sinnir ekki menntun og færniþjálfun innan ramma fjölmenningarlegs náms á ekki bjarta framtíð. Biedermann ætti að vera hverju okkar lifandi aðvörun um að gera betur.

Lesa pistil á trú.is.

Jörg Alt

17.46 28/6/11 - 0 ath.

Jörg Alt er Jesúíti og býr í Nürnberg í Þýskalandi. Hann komst í fréttirnar nýverið með kröfu sinni um nýjan skatt: Fjármagnsflutningsskatts. Ástæðan að baki þessarar kröfu er staðan í Grikklandi sem að hans mati er að hluta til komin vegna þess hve fjármagnsmarkaðurinn fær að vera afskiptur og frjáls. Jörg er líka einn af stofnendum átaks í Þýskalandi sem snýst um fátækratíund af öllum fjármagnshreyfingum í Þýskalandi. Semsagt, farið er fram á að þau sem standa í því að flytja peninga, þ.e. færa fjármagn til, sérstaklega á milli landa en einnig innanlands styðji við þá sem ekki eiga peninga. Sjá meðal annars hér!

Kenneth Roth

20.51 27/6/11 - 0 ath.

Eitt af þeim vefsvæðum sem ég heimsæki á hverjum degi er vefur HUMAN RIGHT WATCH. Þar ræður Kenneth Roth ríkjum, eða öllu heldur þar er sagt frá því sem hann og starfsfólk hans kemst að í gegnum rannsóknarvinnu sína varðandi það hvernig ríki eru að standa sig þegar kemur að mannréttindum. Við þurfum á fólki eins og Kenneth Roth að halda í þessum heimi, fólki sem er óhrætt við að beita faglegum, viðurkenndum vinnubrögðum þannig að hægt sé að benda á – á trúverðugan hátt – þau ríki, samtök, einstaklinga … sem þverbrjóta mannréttindi. Samtökin hafa m.a. nýverið birt skýrslu um eitrað ástand í fjórum héruðum Kína og hvatt bandarísk stjórnvöld til að láta af hernaðarstuðningi við ríki sem hafa ekki sagt að fullu skilið við barnahernað (málefni sem ég fjallaði líka um hér á annál í gær).

Ansgar Hörsting

13.58 27/6/11 - 0 ath.

Evangelísku fríkirkjurnar í Þýskalandi eiga margar aðild að regnhlífasamtökum fríkirkna sem bera heitið ,,Vereinigung Evangelischer Freikirchen” skammstafað VEF. Forseti samtakanna er Ansgar Hörsting, en hann og samtök hans komust nýverið í fréttirnar vegna þess að þau sendu öllum þingmönnum á þýska þinginu (Bundestag) bréf þar sem farið er fram á að fósturskimanir sem fela í sér erfðagreiningu (e. Preimplantation genetic diagnosis) verði alfarið bannaðar. Fóstrið sé manneskja alveg frá því að eggið og sæði mætast. Tilgangur lífsins sé lífið sjálft en ekki hversu virk við getum verið (þ. “Sinn des Seins” wird durch die “Zweckmäßigkeit des Seins” ersetzt). Sjá m.a. hér.

« Fyrri færslur ·

© pb.annáll.is · Færslur · Ummæli