pb.annáll.is

AnnállAkureyrarAkademíanDeutschEvrópa Unga FólksinsJólKirkjanPersónur og leikendurÚr Glerárkirkju
  • Annálar

  • Tenglar

  • Eldri færslur

  • Leit

Henrik Arnold Wergeland

10.35 27/6/11 - 0 ath.

Skáldið og fræðimaðurinn Henrik Arnold Wergeland (1808 – 1845) var mikilvægur frumkvöðull á sviði sjálfstæði þjóða, trúfrelsis og málfrelsis. Hann var ötull baráttumaður fyrir virkri þátttöku borgaranna í Noregi. Sýn hans var sú að virkni og þekking fólksins væri forsenda þróunar hins unga lýðræðisríkis. Þeir eru ekki margir Norðmennirnir sem hafa lagt jafn mikið til lýðræðis- og mannréttindafræðslu í Noregi eins og hann. Því fer vel á því að sú stofnun Evrópuráðsins sem nú hefur starfað í tæp tvö ár í Noregi og sér um menntun kennara í lýðræðis- og mannréttindafræðslu skuli bera nafnið hans: The European Wergeland Centre. Auðvelt er að muna vefslóðina þeirra: www.theewc.org.

Ronald S. Lauder

00.21 27/6/11 - 0 ath.

Ronald S. Lauder er forseti alþjóðasamtaka gyðinga. Nýverið hrósaði hann bókum Benedikts XVI páfa um Jesú frá Nasaret. Í seinna bindinu tekur páfi fram að ekki megi kenna gyðingum um krossdauða Jesú frá Nasaret. Lauder fagnar þessum mikilvægu orðum frá páfa þó þau komi ekki fyrr en nú 2000 árum eftir umræddan atburð. Í gegnum aldirnar hafa gyðingar verið ofsóttir, gyðingaandúð hefur grasserað um alla veröld og hatri beint að þeim. Orð páfa eru þeim nú merki um samstöðu hans. – Sjá frétt um þetta frá því í vor á vef alþjóðasamtaka gyðinga.

Christine Bergmann

00.07 27/6/11 - 0 ath.

Christine Bergmann er fyrrverandi ráðherra fjölskyldumála í Þýskalandi. Frá því snemma á árinu 2010 hefur hún sinnt því verkefni að stýra skýrslugerð um misnotkun á börnum í Þýskalandi. Nýverið skilaði hún lokaskýrslu (samantekt). Umfangið og afleiðingarnar komu þessar reynslumiklu konu á óvart. Samhliða skýrslugerðinni hefur skrifstofa hennar staðið fyrir baráttuherferð undir yfirskriftinni: Sá sem segir frá brýtur völd gerandanna” (þ. Wer das Schweigen bricht, bricht die Macht der Täter). Þessi þrjúhundruð blaðsíðna langa skýrsla gerir lýðum ljóst að þau sem hafa orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi þrá flest að öðlast viðurkenningu á því að á þeim hafi verið brotið. Bergmann setur fram þá kröfu í garð stjórnmálamanna að brugðist verði við og meðal annars búin til viðmið um hvernig hægt sé að koma fjárhagslega til móts við þennan hóp fólks – þar dugi ekki jafnaðargreiðslur, heldur þurfi að horfa á hvert tilfelli fyrir sig. Sjá m.a. hér.

Muhammad Yunus

23.27 26/6/11 - 0 ath.

Þær fréttir bárust fyrir síðustu jól að ríkisstjórnin í Alþýðulýðveldinu Bangladess væri búin að koma því svo fyrir að Muhammad Yunus væri ekki lengur í stjórn Grameen bankans sem hann stofnaði til þess að veita fátækum örlán sem væri nokkurs konar hjálp til sjálfshjálpar, þ.e. ætlað til þess að þau gætu komið fótunum undir sig. En veldi og völd Grameen bankans virðast nú vera stjórnvöldum þyrnir í augum. Bankinn er með 8.300.000 viðskiptavini og 23.000 þjónustufulltrúa. Ekki eru allir á einu máli um ágæti bankans og var fjallað um það í norska sjónvarpinu (Brennpunkt) síðastliðið haust. Norska ríkisstjórnin brást við málinu og gerði skýrslu.

* Þau sem vilja lesa meira um þennan banka, geta til dæmis lesið þetta.

* Þau sem vilja styðja málstaðinn (koma Yunus aftur að) ættu að kynna sér starfsemi FRIENDS OF GRAMEEN - því baráttan er enn á fullu.

Radhika Coomaraswamy

22.56 26/6/11 + 1 ath.

Stríð er hörmung sem erfitt er að koma orðum að. Hluti stríðsreksturs víða er að börn eru gerð að hermönnum, þau eru myrt og þau misnotuð. Það var ekki fyrr en fyrir um áratug að Sameinuðu þjóðirnar fóru að reyna að gera eitthvað í málunum. Radhika Coomaraswamy er manneskjan sem fer fyrir því átaki. Að mati Sameinuðu þjóðanna eru um 250.000 börn sett í hlutverk hermanna eða misnotuð í hernaði á einn eða annan hátt. Baráttan gegn barnahernaði gengur hægt en þó virðist miða í rétta átt. Eitt mikilvægt skref er birting lista yfir þá sem misnota börn í hernaði (aftast í þessari skýrslu). Tæplega 150 ríki hafa þegar skrifað undir viðauka við Barnasáttmálann gegn misnotkun á börnum í stríði (Ísland skrifaði undir fyrir 11 árum síðan). Lista yfir svörtu sauðina má finna hér. Endilega kynnið ykkur í þessu samhengi ZERO UNDER EIGHTEEN átakið, t.d. á Facebook. Sjá einnig hér og hér (á þýsku).

Hannelore List

22.10 26/6/11 - 0 ath.

Evangelíska kirkjan í Baden í Suður Þýskalandi er með sérstaka deild sem fjallar um málefni kvenna (Frauenarbeit der badischen Landeskirche). Hannelore List er erindreki þessarar deildar. Hún komst í fréttirnar nýverið í Þýskalandi þegar hún mótmælti því að báðir foreldrar fái sjálfkrafa sameiginlegt forræði yfir börnum við fæðingu í þeim tilfellum þar sem móðirin er einstæð. Þarna er Hannelore List að mótmæla tillögu frá dómsmálaráðherra Þýskalands, Sabine Leutheusser-Schnarrenberger sem vill að mæður sæki sérstaklega um það innan átta vikna frá fæðingu að fá að vera einar um forræði barna sinna, annars gildi að báðir foreldrar fari með sameiginlegt forræði. Hvort er betra? Að sameiginlegt forræði gildi eins og Schnarrenberger vill og fylli út eyðublað ef hún vill vera ein með forræðið eða að það gildi að móðir hafi forræði og að faðir sæki um að það verði sameiginlegt eins og List vill? Sjá meðal annars hér og hér.

Rafael Correa

21.46 26/6/11 - 0 ath.

Hún er áhugaverð, staðan sem upp er komin í tengslum ríkis og kaþólsku kirkjunnar í Ekvador. Rafeal Correa sem er forseti landsins tilkynnti fyrir nokkru síðan að hann myndi nýta neitunarvald sitt í hvert skipti sem kaþólska kirkjan reyndi að setja einstakling á biskupsstól sem væri of hægrisinnaður eða setti ekki nægar áherslur á félagslega uppbyggingu og réttindi minnihlutahópa. Það er fagnaðarefni að komið sé í veg fyrir að einstaklingar sem hafa ekki þarfir samfélagsins í heild sinni fyrir augum fái valdamikil embætti. Það áhugaverða í þessu er að ég fæ ekki betur skilið af þeim fréttum sem ég hef lesið um málið að það séu kaþólskir leikmenn sem vilja breytingar í kaþólsku kirkjunni og að forsetinn styðji við bakið á þeim í þeirri viðleitni sinni. Fólkið vill fá að velja sína leiðtoga sjálft en ekki fá þá senda frá Róm. Sjá m.a. hér og hér.

· Næstu færslur »

© pb.annáll.is · Færslur · Ummæli